Sigurður Gísli Björnsson, fyrrverandi eigandi og framkvæmdastjóri Sæmarks-Sjávarafurða, segir að sér hafi brugðið þegar að Páll Jónsson, rannsóknarmaður á vegum skattrannsóknarstjóra, hafi allt í einu verið „kominn hinum megin við borðið“ og yfirheyrt hann um meint skattalagabrot.
Páll hafi setið trúnaðarfundi og sinnt ýmsum lögfræðilegum verkefnum fyrir Sigurð Gísla og Sæmark-Sjávarafurðir, þegar hann starfaði sem löglærður fulltrúi eiganda lögfræðistofunnar Nordik Legal.
Þetta kom fram í máli Sigurðar Gísla við aðalmeðferð í hinu svokallaða Sæmarksmáli sem hófst í dag. Þrír eru ákærðir í málinu, þar af einn sem játaði í dag að hafa gefið út tilhæfulausa reikninga á Sæmark.
Sigurður Gísli gaf skýrslu fyrir dómi en neitaði að tjá sig um sakarefnið.
Lögmaður Sigurðar Gísla lagði fram bókun sem innihélt yfirlit reikninga frá Nordik legal frá 1. janúar 2011 til lok ágúst 2013 sem sýna fram á viðskipti við lögmannsstofuna.
Ekki kom fram í reikningunum hver aðkoma Páls Jónssonar hefði verið í þeirri vinnu sem rukkað var fyrir en Sigurður Gísli segir hann hafa setið marga fundi og sinnt almennum lögfræðistörfum.
Í gögnum sem lögð voru fram fyrir dóminn kom m.a. fram að Páll hefði m.a. vottað stofnskjöl.
Þá segir Sigurður Gísli að Páll hafi haft aðgang að trúnaðarskjölum Sæmarks í störfum sínum fyrir Nordik Legal og telur hann að Páll hafi nýtt sér það við rannsóknina.
Í september 2023 voru þrír menn ákærðir fyrir stófellt skattalagabrot í tengslum við rekstur Sæmarks-Sjávarafurða ehf. á árunum 2010 til 2017.
Sigurður Gísli var ákærður fyrir að hafa komist hjá því að greiða tæpleg hálfan milljarð í skatta eftir að hafa tekið tæplega 1,1 milljarð út úr rekstri félagsins og komið fyrir í aflandsfélögum sem hann átti.
Þá er hann einnig sagður hafa komist hjá því að greiða samtals yfir 100 milljónir í skatta í tengslum við rekstur Sæmarks með því að hafa vanframtalið tekjur félagsins og launagreiðslur starfsmanna upp á samtals 1,1 milljarð og þar með komist hjá því að greiða 81,8 milljónir í tryggingagjald.
Einn eigenda lögmannsstofunnar Nordik Legal er Andri Gunnarsson lögmaður. Andri hafði stöðu grunaðs manns við rannsókn skattrannsóknarstjóra á málefnum Sæmarks-Sjávarafurða og Sigurðar Gísla. Hann var ekki ákærður.
Sigurður Gísli hefur neitað sök og lögmaður hans farið fram á að málinu verði vísað frá dómi. Byggist frávísunarkrafan á því að Páll Jónsson, rannsóknarmaður hjá skattrannsóknarstjóra, hafi verið vanhæfur að lögum til að rannsaka málið. Frávísunarkröfunni var hafnað af héraðsdómara í mars á síðasta ári.
Í júní sama ár sagði verjandi Siguðar Gísla ný gögn renna stoðum undir frávísunarkröfu vegna meints vanhæfis rannsóknarmanns.
Ásamt Sigurði Gísla eru þeir Magnús Jónsson lögmaður og Jónas Sigurðsson einnig ákærðir í málinu. Gáfu þeir báðir skýrslu fyrir dómi í dag.
Magnús var skráður fyrir svissneska félaginu Amber Seafood og er hann ákærður fyrir meiriháttar bókhalds- og skattalagabrot auk peningaþvættis. Er félagið sagt hafa gefið út tilhæfulausa sölureikninga á Sæmark.
Magnús gaf lítið upp um viðskipti Amber Seafood og Sæmarks og bar fyrir sig íþyngjandi þagnarskyldu undir svissneskum lögum. Sagði hann þó öll viðskipti á milli fyrirtækjanna hafa byggt á samningum.
Jónas Sigurðsson var staddur erlendis og gaf skýrslu í gegnum síma. Játaði hann að hafa gefið út tilhæfulausa reikninga á Sæmark og fengið andvirði virðisaukaskatts endurgreiddan.
Hann sagðist þó ekki muna hvernig þessi viðskipti hefðu komið til, það hefði verið svo „gríðarlega langt síðan“.