Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrsti varaforseta Alþingis, gagnrýndi samstöðu nýrrar ríkisstjórnar á þingfundi í gær.
Hún segir ummæli Eyjólfs Ármannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og þingmanns Flokks fólksins, um bókun 35 gefa til kynna að hann styðji ekki fyrsta mál ríkisstjórnarinnar.
„Í gær sagði þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins að hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar væri lokið. Ég ætla ekki að óska neinum nýgiftum hjónum hveitibrauðsdaga eins og þessi ríkisstjórn hefur átt,“ sagði Bryndís.
Bryndís sagði að fyrsta mál ríkisstjórnarinnar í gær hefði verið bókun 35 og komið hefði fram í ræðupúlti að einn af ráðherrum ríkisstjórnar styddi ekki það mál. Sami ráðherra og hefði sem þingmaður sagt að um væri að ræða stjórnarskrárbrot.
„Ég velti fyrir mér, er þetta samstaðan sem við sjáum fram á? Er þetta samstaðan sem hæstvirtur forsætisráðherra hefur talað um? Að hér væri komin samhent ríkisstjórn? Hún er ekki einu sinni sammála um fyrsta þingmálið sem lagt var hér fram. Ráðherra í ríkisstjórn styður ekki það mál. Ég segi nú bara: Þetta verður áhugaverður þingvetur,“ sagði Bryndís í lokin.
Til umræðu var frumvarp um breytt orðalag er varðar hafnaraðstöðu og siglingavernd í lögum EES-samningsins. Kallaði Eyjólfur eftir, með umræddu frumvarpi, að skýrt væri í lögum að Samgöngustofa, sem sé að hans sögn hluteigandi stjórnvald, beri ábyrgð á að staðfesta áhættumat útgerða fyrir íslensk skip og hafnir.
Í kjölfar ummæla Eyjólfs vildi Bryndís fá á hreint hvort hún hafi skilið ráðherrann rétt, að fyrsta mál ríkisstjórnarinnar væri óþarft.
„Ef ég skildi orð hans rétt þá væri EES-samningurinn rétt innleiddur og það væri engin þörf á bókun 35.“
„Ég ætlaði bara að gefa hæstvirtum ráðherra tækifæri því kannski misskildi ég hann hérna alveg í lokin. Styður hæstvirtur ráðherra það mál sem rætt var hér fyrr í dag, og var fyrsta mál ríkisstjórnarinnar, og telur hæstvirtur ráðherra þörf á því máli,“ spurði Bryndís.
Eyjólfur sagðist þá telja það „alveg kristaltært“ að gengið hefði verið frá þessu máli fyrir 30 árum síðan. Vandamálið hafi verið vitað „því á fótboltavellinum innan marka Evrópusambandsins er bara eitt sett af reglum. Ísland getur ekki verið með sérreglur.“
„Ég tel það að þegar við göngum í samstarf við aðra flokka að þá gefum við eftir sum mál okkar en fáum önnur fram. Þetta er málamiðlun. Íslensk stjórnmál byggjast á málamiðlun. Þetta eru flokkar, við erum í flokkum, það er flokksagi og við spilum með sama liðinu. Ég fer ekki að breyta um leikkerfi í ríkisstjórn Íslands í dag. Það var samið um þetta og ég styð ríkisstjórn Íslands og þannig lít ég á þetta mál,“ sagði Eyjólfur í lokin.