Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, mun mæla fyrir því að engin samræmd könnunarpróf verði haldin í grunnskólum í vor.
Enn eitt árið verður því ekkert heildstætt samræmt mat á getu íslenskra barna, sem hefur þó hrunið í alþjóðlegum samanburði.
Framkvæmd slíkra prófa yrði flókin og dýr og hefði „lítinn tilgang“ að sögn ráðherra.
Þess í stað verður matsferillinn, nýtt samræmt námsmat, prufukeyrður í 26 skólum.
Innleiðingu matsferilsins var flýtt í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is á síðasta ári.
Samkvæmt lögum ber menntamálaráðherra að leggja fyrir samræmt námsmat á hverju ári. Með lagabreytingu sumarið 2022 var Ásmundi Einari Daðasyni, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, veitt heimild til að fresta samræmdum prófum til og með 31. desember 2024.
Þarf ráðherra því lögum samkvæmt að leggja fyrir könnunarpróf á ný í ár, nema honum verði veitt heimild til að fresta þeim.
Þegar óskað var eftir því að fresta fyrirlagningu samræmdu könnunarprófanna var stefnt að því að matsferillinn yrði tilbúinn til notkunar þegar fresturinn rynni út.
Svo er ekki, eins og fram hefur komið og ítrekað verið gagnrýnt.
Þegar nýja námsmatið verður tilbúið til skyldubundinnar notkunar, samkvæmt gildandi áætlunum, verða sjö skólaár liðin án þess að nokkurt heildstætt samræmt mat hafi farið fram á hæfni íslenskra grunnskólabarna.
Á sama tíma hefur frammistaða þeirra hrunið í alþjóðlegum samanburði og innan skólakerfisins er ekki búist við að þeirri þróun verði snúið við í bráð.
Eins og fyrr segir verður nýja námsmatið prufukeyrt í 26 skólum í vor.
Aðeins er þó búið að þróa matsferil sem reynir á íslensku- og stærðfræðiþekkingu nemenda og verður því ekki prófað í fögum eins og ensku eða náttúruvísindum.
„Það er talið af öllum sérfræðingum mjög óheppilegt að leggja fyrir samræmd próf, þau yrðu þá að vera skrifleg og hafa lítinn tilgang í sjálfu sér, eru flókin og dýr,“ segir Ásthildur Lóa í samtali við mbl.is.
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur enn ekki kynnt aðgerðaáætlun í menntamálum sem átti að koma til framkvæmda á árunum 2024 til 2027.
Kynna átti áætlunina síðasta sumar en það var ekki fyrr í undir lok september sem Ásmundur Einar kynnti drög að áætluninn á menntaþingi.
Óskaði hann þá eftir endurgjöf frá þinggestum og í kjölfarið frá almenningi.
Ráðuneytið mun hafa lokið vinnunni við að gera breytingar á aðgerðaáætluninni í samræmi við endurgjöf í haust.
Aðgerðaáætlunin var þó ekki kynnt, sökum þess að stjórnarsamstarfinu var slitið.
Var það gert til að gefa nýjum ráðherra og nýrri ríkisstjórn tækifæri til að fara yfir og laga aðgerðaáætlunina að sínum áherslum.
Aðspurð segir Ásthildur Lóa að aðgerðaáætlunin verði kynnt fljótlega. Hún sé þó ekki með nákvæma dagsetningu.
Með aðgerðaáætluninni á meðal annars að bregðast við niðurstöðum PISA-könnunarinnar sem kynntar voru í desember 2023, eða fyrir rúmlega 14 mánuðum.
Næsta PISA-könnun er lögð fyrir á yfirstandandi skólaári.
Eins og fram hefur komið búast þeir sérfræðingar, sem Morgunblaðið og mbl.is hafa rætt, við enn verri niðurstöðum en síðast.