„Ekki góðar fréttir fyrir Reykvíkinga“

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Eyþór

„Ég held að það séu ekki góð tíðindi fyrir borgarbúa. Ég held að það sé ekki ákall eftir þessu stjórnarmynstri í borginni,“ segir Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, um fimm flokka félagshyggjustjórn.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Sósíalista, Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólksins hafa fundað um mögulega myndun meirihluta í borgarstjórn og tilkynntu nú fyrir stundu að formlegar viðræður væru hafnar. mbl.is ræddi við Einar stuttu áður en þau tíðindi urðu ljós.

Ekki góðar fréttir

Aðspurður segist borgarstjórinn telja að íbúar myndu ekki stilla upp þessum fimm flokkum ef íbúar yrðu spurðir hvert væri ákjósanlegasta mynstrið í Reykjavík.

„Ég held að það sé ekki fyrsti kostur hjá íbúum. Þannig ég held að þetta séu ekki góðar fréttir fyrir Reykvíkinga.“

Myndi koma á óvart 

Þá segir borgarstjórinn að það myndi koma á óvart að sjá Flokk fólksins ganga inn í stjórnarsamstarfið ef af því yrði vegna þeirra áhersla sem Kolbrún Baldursdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi flokksins, og Helga Þórðardóttir, núverandi borgarfulltrúi, hafi haft í borgarmálum.

„Þar sem gagnrýni þeirra hefur aðallega beinst gegn Samfylkingu og Pírötum þegar kemur að skipulagsmálum og rekstrarmálum.“

Hefur litla trú á flokkunum

Hann segir flokkana nú vera að tala saman og vonast hann til þess að umræður þeirra snúi að þeim stóru málum sem afgreiða þurfi í Reykjavík.

Nefnir hann aukna uppbyggingu húsnæðis sem dæmi sem og að mæta barnafjölskyldum sem bíða eftir leikskólaplássi með heimgreiðslum.

Þá vonast hann einnig til þess að umræðurnar snúi að hvernig hægt sé að hagræða betur, auka skilvirkni í rekstri borgarinnar og að eyða óvissu um Reykjavíkurflugvöll og rekstrargrundvöll hans.

„En ég hef því miður mjög litla trú á því að þessir flokkar séu flokkarnir sem geti tekið þessar ákvarðanir.“

Munu mæta grjóthörð í minnihluta

Aðspurður segist hann nú fylgjast með hvort flokkarnir nái að mynda meirihluta.

„Ef það fer þannig þá mætum við framsóknarhópurinn grjóthörð í minnihluta og veitum málefnalegt aðhald og berjumst fyrir þeim breytingum sem við teljum að Reykvíkingar þurfi á að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert