Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, segir flokkana fimm sem hófu formlegar meirihlutaviðræður vera sammála um það sem skipti máli.
Greint hefur verið frá að Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn hafi hafið formlegar viðræður fyrr í dag.
Flokkarnir voru búnir að tala saman í rúman sólarhring en Líf segir nú viðræðurnar hafa verið formgerðar.
Hún segir að í óformlegu samtölunum hafi verið að reyna að finna sameiginlega samningsfleti og hvort að flokkarnir væru sammála um það sem þyrfti að gera fyrir borgina.
Nú séu viðræður orðnar formlegar og segir Líf að því verði farið dýpra í saumana á ýmsum málum, fólk verði kallað inn til að taka þátt í samtölum og beðið verði um útreikninga fyrir ýmsa þætti.
Um næstu skref segir hún að flokkarnir fari nú í praktísk verkefni svo sem að búa til fundardagskránna og leggjast yfir hvernig þeir sjái fyrir sér vinnulagið.
„Þannig núna þurfum við að bretta upp ermarnar. Það er sú vinna sem er framundan.“