„Við höfum auðvitað unnið saman í borgarstjórn og þekkjumst ágætlega. En við höfum líka bara verið að kynnast betur og fundið að það er mikill samhljómur með okkur um áherslur sem þarf akkúrat að leggjast á núna,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, um formlegar viðræður félagshyggjustjórnarinnar.
Hún segir að verið sé að byggja samstarfið á félagslegum grunni. Verið sé að vinna með fólkinu í borginni fyrir fólkið í borginni.
„Við erum komnar með ágætis mynd af því sem okkur langar að gera. Maður fer ekkert í formlegar viðræður nema það sé traust um það að það geti gengið. En við ætlum bara að útfæra það betur og munum leyfa ykkur að fylgjast með,“ segir Heiða en vill ekki gefa of mikið upp enn sem komið er:
„Núna hefjast svona formlegar viðræður og þá mun maður svona negla þetta betur og skoða alla fleti og svona. En það eru komnar svona einhverjar línur um það hvað við viljum gera og okkur hlakkar til að koma því niður á blað og kynna það fyrir öllum.“
Um næstu skref segist hún búast við því að fundað verði alla næstu daga.
„Við þurfum að vinna hratt og vel og við viljum vanda okkur. Það tekur tíma og við ætlum bara að gefa því þann tíma sem það þarf.“