Fordæmalaust voðaverk: Fer fram á 20 ára fangelsi

Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í ágúst í fyrra.
Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í ágúst í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Ákæruvaldið fer fram á að Alfreð Erling Þórðarson verði sakfelldur fyrir tvöfalt manndráp af  ásetningi og verði gert að sæta fangelsisvist að minnsta kosti í 20 ár, jafnvel ævilangt.

Til vara er krafa ákæruvaldsins að Alfreð verði vistaður á réttargeðdeild. Hvatti sækjandi dómara til að líta frekar til varakröfu ákæruvaldsins í ljósi þess sem fram hefur komið um alvarleg geðræn veikindi Alfreðs.

Þetta kom fram í máli Arnþrúðar Þórarinsdóttur saksóknara fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Aðalmeðferð málsins lauk í dag með munnlegum málflutningi sækjanda, verjanda og réttargæslumanns. 

Alfreð er ákærður fyrir að hafa orðið hjónunum Björgvini Ólafi Sveinssyni og Rósu G. Benediktsdóttur að bana á heimili þeirra með hrottalegum hætti 21. ágúst á síðasta ári.

Halda aðalkröfu til streitu vegna alvarleika

Arnþrúður var ómyrk í máli þegar hún flutti málið fyrir héraðsdómi og benti á að ekki sé að finna dómafordæmi hér á Íslandi þar sem tvær manneskjur eru teknar af lífi með jafn hrottalegum hætti. Ekki sé því fordæmi fyrir jafn alvarlegum brotum hér á landi.

Hún sagði ákæruvaldið halda aðalkröfu sinni til streitu einfaldlega vegna alvarleika málsins og vegna þess hve hrottalegur verknaðurinn sem ákærði er sakaður um að hafa framið var. Fer ákæruvaldið því fram á að litið verði til heimildar um að þyngja dóminn og fer fram á að Alfreð verði að minnsta kosti dæmdur í 20 ára fangelsi og jafnvel verði skoðað að dæma hann í ævilangt fangelsi.

Dómsins að meta sakhæfi

Arnþrúður tók fram að ljóst væri að það væri dómsins að meta sakhæfi Alfreðs en erfitt væri að líta fram hjá geðrænum veikndum Alfreðs. Margt væri í gögnum málsins sem benti til þess að Alfreð væri ósakhæfur eins og kom fram í máli Kristins Tómassonar geðlæknis í gær.

Vísaði hún til þess að Kristinn telji Alfreð hafa verið ósakhæfan á verknaðarstundu og ófæran um að stjórna gjörðum sínum. Hafi hann orðað það þannig að aldrei hafi örlað á sakhæfi hjá Alfreð.

Þá hafi það verið mat Guðrúnar Dóru Bjarnadóttur geðlæknis á Landspítala, sem ræddi við Alfreð kvöldið sem hann var handtekinn, að hann hafi verið í geðrofi og með miklar hugsanatruflanir.

Alfreð sé veikur maður

Því hvatti Arnþrúður dóminn til að líta til varakröfu ákæruvaldsins og vista Alfreð á réttargeðdeild. Allir sem komið hefðu að málinu sæju greinilega að Alfreð væri veikur maður. 

Þar að auki væri hann líka hættulegur samfélaginu, muni hann ganga laus. Undir lok málflutnings síns sagði Arnþrúður að tvö mannslíf væru dýrt gjald, og að hún gerði sér eflaust sjálf ekki grein fyrir því hversu dýrt gjaldið væri fyrir aðstandendur látnu. 

„Það verður að draga lærdóm af þessu og hlúa betur að geðheilbrigðismálum í landinu. Þetta er eitthvað sem má ekki endurtaka sig,“ sagði Arnþrúður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert