Fundur samninganefnda framhaldsskólakennara og ríkisins hófst klukkan 11 í Karphúsinu. Aðeins er verið að ræða atriði sem snúa að framhaldsskólakennurum og því er fundað sérstaklega með þeim hluta samninganefndarinnar.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að samtöl væru í gangi um tiltekin atriði sem hugsanlega gætu liðkað fyrir kjarasamningum.
„Þar eru samtöl í gangi um tiltekin atriði sem eru ekki dauð og það á að reyna að leiða þau til lykta. En það er ekki þar með sagt að þau dugi til að klára gerð kjarasamnings heldur gætu hugsanlega liðkað fyrir honum,“ sagði Ástráður á mánudag, en ekki náðist í hann fyrir fundinn í dag.
Náist samningar ekki fyrir 21. febrúar hefjast ótímabundin verkföll í fimm framhaldsskólum: Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Borgarholtsskóla, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga.
Ekki hefur verið boðaður nýr fundur hjá samninganefndum leik- og grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Síðast var fundað á mánudag og sagði Ástráður þann fund hafa gengið mjög illa. Ekki væri tilefni til að boða til nýs fundar að svo stöddu.
Hann taldi að dómur Félagsdóms um að verkföll í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum væru ólögmæt, hefði haft neikvæð áhrif á viðræðurnar. Þar fyrir utan ríkti alvarlegt vantraust á milli deiluaðila.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is í gær að samningar strandi á því að kennarar vilji geta sagt þeim upp á tímabilinu ef þeim hugnast ekki útkoman úr þeirri virðismatsvegferð sem lagt er upp með, en halda engu að síður þeim launahækkunum sem eru á borðinu.
Sveitarfélögin vilji hins vegar meiri skuldbindingu í ljósi þess að verið sé að bjóða umtalsverðar launahækkanir. Þau geti því ekki sætt sig við að samningurinn sé uppsegjanlegur á tímabilinu.
Sagði Inga skorta samningsvilja af hálfu kennara. Það væri fullur vilji til þess að hækka laun kennara vel, en það væri erfitt að koma launahækkunum til þeirra sem vildu ekki taka á móti þeim.