Fundað með framhaldsskólakennurum í dag

Guðjón Hreinn Hauksson er formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðjón Hreinn Hauksson er formaður Félags framhaldsskólakennara. Samsett mynd

Fundur samninganefnda framhaldsskólakennara og ríkisins hófst klukkan 11 í Karphúsinu. Aðeins er verið að ræða atriði sem snúa að framhaldsskólakennurum og því er fundað sérstaklega með þeim hluta samninganefndarinnar. 

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að samtöl væru í gangi um tiltekin atriði sem hugsanlega gætu liðkað fyrir kjarasamningum.

„Þar eru sam­töl í gangi um til­tek­in atriði sem eru ekki dauð og það á að reyna að leiða þau til lykta. En það er ekki þar með sagt að þau dugi til að klára gerð kjara­samn­ings held­ur gætu hugs­an­lega liðkað fyr­ir hon­um,“ sagði Ástráður á mánudag, en ekki náðist í hann fyrir fundinn í dag.

Náist samningar ekki fyrir 21. febrúar hefjast ótímabundin verkföll í fimm framhaldsskólum: Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri, Verk­mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri, Borg­ar­holts­skóla, Verk­mennta­skóla Aust­ur­lands og Fjöl­brauta­skóla Snæ­fell­inga.

Alvarlegt vantraust á milli aðila

Ekki hefur verið boðaður nýr fundur hjá samninganefndum leik- og grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Síðast var fundað á mánudag og sagði Ástráður þann fund hafa gengið mjög illa. Ekki væri tilefni til að boða til nýs fundar að svo stöddu.

Hann taldi að dómur Félagsdóms um að verkföll í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum væru ólögmæt, hefði haft neikvæð áhrif á viðræðurnar. Þar fyrir utan ríkti alvarlegt vantraust á milli deiluaðila.

Segir erfitt að koma hækkunum til kennara

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is í gær að samningar strandi á því að kennarar vilji geta sagt þeim upp á tíma­bil­inu ef þeim hugn­ast ekki út­kom­an úr þeirri virðismats­veg­ferð sem lagt er upp með, en halda engu að síður þeim launa­hækk­un­um sem eru á borðinu.

Sveit­ar­fé­lög­in vilji hins veg­ar meiri skuld­bind­ingu í ljósi þess að verið sé að bjóða um­tals­verðar launa­hækk­an­ir. Þau geti því ekki sætt sig við að samn­ing­ur­inn sé upp­segj­an­leg­ur á tíma­bil­inu.

Sagði Inga skorta samningsvilja af hálfu kennara. Það væri fullur vilji til þess að hækka laun kennara vel, en það væri erfitt að koma launahækkunum til þeirra sem vildu ekki taka á móti þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert