Unnsteinn Örn Elvarsson, hæstaréttarlögmaður og verjandi Alfreðs Erlings Þórðarsonar segir ljóst að geðheilbrigðiskerfið hafi brugðist Alfreð illilega.
Verjandi fer fram á að Alfreð verði sýknaður en til vara að verði hann sakfelldur verði honum ekki gerð refsing. Ef honum verði gerði refsing verði það lægsta mögulega refsing.
Þetta kom fram við munnlegan málflutning í lok aðalmeðferðar málsins gegn Alfreð. Alfreð er ákærður fyrir að hafa orðið hjónunum Björgvini Ólafi Sveinssyni og Rósu G. Benediktsdóttur að bana með hrottafengnum hætti á heimili þeirra í Neskaupstað í ágúst í fyrra.
Telur verjandi að sýkna eigi Alfreð á grundvelli þess að hann teljist ekki sakhæfur. Dómskvaddur matsmaður, Kristinn Tómasson geðlæknir, sagði fyrir dómi í gær að hann teldi Alfreð ekki vera sakhæfan. Brýnt væri að hann yrði vistaður á réttargeðdeild og fengi sérhæfða langtímameðferð.
Annar geðlæknir, Guðrún Dóra Bjarnadóttir, taldi Alfreð hafa sýnt skýr merki um geðrof þegar hann var handtekinn og með miklar hugsanatruflanir
Unnsteinn gerði alvarlegar athugasemdir við málflutning sækjanda í málinu og einnig rannsókn lögreglu. Þá gerði hann að umtalsefni þau langvinnu geðrænu veikindi sem Alfreð hefur glímt við undanfarin ár.
Eins og mbl.is og Austurfrétt fjölluðu um í síðustu viku hafði Alfreð verið úrskurðaður til nauðungarvistunar á geðdeild í tólf vikur sumarið 2024. Sá úrskurður var ekki fallinn úr gildi þegar morðin áttu sér stað í Neskaupstað 21. ágúst.
Unnsteinn upplýsti um það í málflutningi sínum að Alfreð hefði verið útskrifaður af geðdeildinni 20. júní. Í skýrslu komi fram að hann hafi verið með miklar ranghugmyndir á þeim tíma en neitað lyfjameðferð. Hann hafi sjálfur farið fram á að hann yrði útskrifaður. Og þar með hafi hann verið útskrifaður af geðdeild.