Grímur: Mikilvægt að rannsaka fjármagnið

Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar.
Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Karítas

Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi lögreglumaður, segir að það sé engin sérstök ástæða til að mála stöðu skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi of dökkum litum. Hann tekur fram að Ísland glími ekki við sambærileg vandamál og Norðurlöndin hvað varðar slíka brotastarfsemi. 

„Við skulum þó gæta þess að við nálgumst ekki slíkt ástand meira en orðið er,“ sagði hann á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Hann tók einnig fram að það væri mikilvægt að rannsaka fjármagn brotahópanna. 

Grímur benti á að innflutningur og dreifing fíkniefna væru einkum þau frumbrot sem séu til rannsóknar hér á landi.

Fíkniefnamarkaðurinn veltir mestum fjármunum

„Sú háttsemi er alls staðar í Evrópu og víðar í veröldinni talinn vera sá afbrotamarkaður sem mestum fjármunum veltir,“ sagði hann.

Í ræðu sinni nefndi hann einnig að þeim málum hefði fjölgað nokkuð þar sem grunur um mansal er til rannsóknar.

Það sé bæði vegna frumkvæðisrannsóknar lögreglunnar en einnig hafi tilkynningum um mansal fjölgað.

Grímur benti á að innflutningur og dreifing fíkniefna séu einkum …
Grímur benti á að innflutningur og dreifing fíkniefna séu einkum þau frumbrot sem séu til rannsóknar hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins 2-3% sem lagt er hald á

Grímur tekur fram að það sé mikilvægt í baráttu við skipulagða brotastarfsemi að fjármagn brotahópanna sé rannsakað og eftir atvikum lagt hald á ávinning sem grunur leikur á að sé afrakstur starfsemi slíkra brotahópa.

„Svo það sé sett í samhengi þá er talið að haldlagning nemi um tveimur til þremur prósentum af ólögmætum ávinningi brotastarfsemi í Evrópu og endanleg upptaka í dómi er enn lægra hlutfall.“

Þá segir Grímur að frá Covid-tímum hafi skipulagðir brotahópar gert sig gildandi við alls kyns netsvik og það sé sú tegund brota sem mest hafi aukist.

Netsvik hafa aukist mikið frá því á tímum faraldurs.
Netsvik hafa aukist mikið frá því á tímum faraldurs. Ljósmynd/Colourbox

Alvarleg staða í Svíþjóð

„Sem kunnugt er hefur nýr hæstvirtur dómsmálaráðherra tiltekið sérstaklega að hún og ríkisstjórnin vilji beita sér sérstaklega gegn skipulagðri brotastarfsemi, m.a. með fjölgun lögreglumanna og er það fagnaðarefni,“ sagði Grímur.

„Það er engin sérstök ástæða til þess að mála stöðu er varðar skipulagða brotastarfsemi hér á landi of dökkum litum.

Þó að við fylgjumst með fréttum af Norðurlöndunum, einkum frá Svíþjóð, þar sem við blasir alvarleg staða er varðar skipulaga brotahópa, þá eigum við ekki við sambærilegan vanda að stríða hér á landi. Við skulum þó gæta þess að við nálgumst ekki slíkt ástand meira en orðið er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert