„Ég finn alveg fyrir því að aðilarnir hafa vilja til þess að ná saman og það þokast eitthvað í rétta átt en það situr samt sem áður eftir að stóru ásteytingarsteinarnir eru óleystir,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari um gang mála á fundi samninganefnda Félags framhaldsskólakennara og ríksins í dag.
Fundurinn hófst klukkan ellefu í morgun og lauk um fjögurleytið.
Ekki er verið að ræða um heildarmynd kjarasamnings heldur ákveðin atriði sem snúa eingöngu að framhaldsskólakennurum. Atriði sem gætu liðkað fyrir kjarasamningi.
Eins og fram kom í viðtali í gær við Ingu Rún Ólafsdóttur, formann samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, stranda kjarasamningar á kröfu um uppsegjanleika samningsins af hálfu kennara og launaliðnum.
Ljóst er að kjarasamningur verður ekki gerður fyrr en þau atriði eru leyst.
„Ég sé ekki að það sé hægt að lenda þessu nema aðilarnir nái saman um þetta. Ég held við komumst ekki framhjá þessu tvennu. Þetta eru grundvallaratriði,“ segir Ástráður.
Að sögn Ingu Rúnar vilja kennarar geta sagt upp samningum á tímabilinu ef þeim hugnast ekki útkoman úr þeirri virðismatsvegferð sem lagt er upp með, en vilja engu að síður halda þeim launahækkunum sem eru á borðinu.
Sveitarfélögin vilja meiri skuldbindingu í ljósi umtalsverðra launahækkana sem þau hafa boðið kennurum, og geta því ekki sætt sig við að samningurinn sé uppsegjanlegur á tímabilinu.
Samninganefndir Félags framhaldsskólakennara og ríkisins funda aftur á morgun en ekki hefur enn verið boðað til nýs fundar hjá samninganefndum leik- og grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ástráður er óviss með hvenær það verður.
„Við erum að fara á milli og tala við fólk og reyna að skapa vitund um ákveðnar greiningar á stöðunni, reyna að finna hvar við getum slípað saman sameiginlega fleti.“