„Við erum að vinna með áætlun frá borginni sem er unnin í samráði við Isavia innanlandsflugvelli og í kjölfar þess er hægt að leggja mat á ástandið. Það tekur einhverja daga örugglega en ég held að öllum sé ljós alvara málsins og að við þurfum að bregðast við.“
Þetta segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, í samtali við mbl.is. Jón fór á fund velferðarnefndar Alþingis í dag en nefndin vildi ræða stöðu sjúkraflugs á Reykjavíkurflugvelli í ljósi þess að loka þurfti Austur-vestur-flugbraut vallarins á dögunum af öryggisástæðum vegna of hárra trjáa í Öskjuhlíð.
Jón Gunnar segir Samgöngustofu í sjálfu sér hafa mögulega átt að grípa fyrr inn í atburðarásina og lýsir því að mælingar frá í október 2024 sem kynntar voru í byrjun desember hafi verið þess eðlis að nokkuð mörg tré væru annað hvort yfir eða nálægt hindrunarfleti sem skuli vera algjörlega hindrunarfrír.
„Það er í raun og veru kannski sú staða og alvarleiki þess sem er þess eðlis að allir aðilar og við þar á meðal hefðum líklega átt að bregðast fyrr við.“
Spurður hvort rétt sé að Samgöngustofa hafi gengist við því á fundi velferðarnefndar að hafa sofnað á verðinum segist Jón Gunnar ekki halda að hann hafi orðað það með þeim hætti.
„Við vorum nú tvö frá Samgöngustofu og ég man ekki hvort þetta tiltekna orð var notað,“ segir hann.
Hann segir samtalið hafa verið hafið fyrir nokkuð löngu síðan en mögulega hefði átt að bregðast við með þessum ráðstöfunum fyrr og vísar þar til lokunar flugbrautarinnar.
Lokun brautarinnar segir hann tímabundna ráðstöfun og algert neyðarúrræði til að tryggja flugöryggi því hún hafi áhrif á rekstur flugvallarins.
„Reykjavíkurflugvöllur þarf að vera með tvær flugbrautir, hreinlega út af vindáttum og starfsleyfi flugvallarins er miðað við tvær flugbrautir. Það er starfsleyfi sem við gefum út. Þannig að það að taka aðra brautina úr notkun er stór ákvörðun, það verður bara að segjast.“
Jón Gunnar segir það vera samtal hlutaðeigandi að reyna að finna lausn – vonandi lausn sem sé með þeim hætti að hægt verði að bregðast hratt við og færa aðstæður til betri vegar þannig að þær verði ásættanlegar.
„Það er alveg klárt að við getum ekki opnað brautina fyrr en tryggt er að flugöryggi sé í lagi og til að staðfesta það þarf að fara yfir áætlun um fellingu trjáa og hvaða áhrif slíkt hefur á flugferla sem eru inn á brautina og svo framvegis.
Það er bara verkefni og samtal sem er í gangi og vonandi vinnst það bara hratt.“
Bendir Jón Gunnar á að bæði í núgildandi og fyrri loftferðalögum segi að Samgöngustofu sé heimilt að bregðast við með atbeina lögreglu ef ekki er brugðist við aðstæðum sem þessum.
Það sé þó algert neyðarúrræði sem hafi ekki verið beitt og eðlilega sé ætlun allra að vinna saman og finna lausnir.