Jóhann Páll leggur fram frumvarp um Hvammsvirkjun

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Eyþór

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur lagt fram frumvarp um Hvammsvirkjun. 

Markmið frumvarpsins er að bregðast við niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. janúar.

Með dóminum var ógild heimild Umhverfisstofnunar frá 9. apríl 2024 til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1 vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun sem og ákvörðun Orkustofnunar frá 12. september 2024 um að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka raforkuverið Hvammsvirkjun.

Hvammsvirkjun.
Hvammsvirkjun. Tölvumynd

Nauðsynlegt að bregðast við óvissu 

Fram kemur í frumvarpinu að lagasetningin sé talin nauðsynleg til að bregðast við þeirri óvissu sem hafi skapast í kjölfar niðurstöðu dómsins þar sem niðurstaðan útiloki í raun hvers kyns framkvæmdir á Íslandi sem leiði til breytinga á vatnshloti.

„Hér getur verið um að ræða framkvæmdir vegna vatnsaflsvirkjana og ýmsar aðrar framkvæmdir, svo sem flóðavarnir, vegagerð, gerð siglingavega jafnt sem gerð aðrennslisskurða fyrir vatnsaflsvirkjanir og miðlunarlón,“ segir í frumvarpinu. 

Leiðir til aukins skýrleika

Þá segir að ef frumvarpið verði samþykkt þá muni það leiða til aukins skýrleika og leysa úr óvissu varðandi heimildir Umhverfis- og orkustofnunar samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. 

„Afar mikilvægt er að löggjöfin kveði skýrt á um að heimila megi breytingu á vatnshloti vegna framkvæmda í þágu almannahagsmuna að undangengnu heildstæðu mati. Slíkt getur verið forsenda markmiða um raforkuöryggi, orkuskipti, atvinnuuppbyggingu, byggðaþróun og annarra markmiða í almannaþágu,“ segir m.a. í frumvarpinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert