„Amfetamín er í raun flokkur efna og í þeim flokki sjáum við þetta dæmigerða amfetamín og metamfetamín, sem er mjög lík sameind, við hana hefur aðeins verið bætt einum aukaefnahópi,“ segir Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, í samtali við mbl.is.
Eins og fjallað hefur verið um hér á vefnum undanfarið er aðalmeðferð nú hafin í tveimur dómsmálum þar sem mikið magn svokallaðs kristalmetamfetamíns kemur við sögu, það er kristallaðs metamfetamíns, og leitaði mbl.is til Adams um skýringar á því hver einkenni og eðli þessa vágests íslensks fíkniefnaheims væru.
Segir hann breytinguna úr amfetamíni í metamfetamín, aukefnahópinn sem hann nefnir, gera efnið fitusæknara sem geri það að verkum að það eigi greiðari leið inn í miðtaugakerfi notandans. „Þess vegna er það talið öflugra og sterkara og svo erum við að auki með þessar amfetamínafleiður eins og MDMA og fleiri og þær skilgreinum við líka sem amfetamínefni,“ útskýrir hann.
„Þegar kristallað metamfetamín er annars vegar er þar venjulega komið frekar hreint efni, til þess að kristalla eitthvað þarf efnið að vera á nokkuð tæru formi,“ heldur efnafræðingurinn áfram. Segir hann þó óhreinindi geta leynst í kristöllunum ef framleiðsluaðferðin er ekki góð. „En ef þú ert kominn með duft eða vökva ertu kominn með mun auðveldari leið til að bæta efnum út í, „kötta“ efnið eins og talað er um,“ segir Adam og á við íblöndun þeirra efna sem nýtt eru til að drýgja amfetamín, og fleiri fíkniefni, áður en til smásölu þeirra kemur.
Kveður hann erfiðara að blanda kristölluð efni, einfaldlega vegna áferðar þeirra. Kristalmetamfetamín lítur jú út eins og brotið gler svo sem sjá má af myndinni er fylgir þessu viðtali.
„Áhrifin eru nokkuð svipuð og af hefðbundnu amfetamíni, en þó sterkari,“ segir Adam og er spurður út í hina gríðarsterku fíkn sem kristalmetamfetamín er þekkt fyrir að valda, en sumar kannanir hafa gefið þá tölfræðilegu útkomu, að án aðstoðar fagfólks á heilbrigðissviði komist aðeins einn af hverjum níu neytendum efnisins gegnum þrjá mánuði án notkunar þess.
Sé litið til meðaltals er talið – og hér er ekki í öllum tilfellum við áreiðanlegar tölfræðilegar upplýsingar að styðjast – að endurhvarfshlutfall (e. relapse rate) kristalmetamfetamínneytenda sé 92 prósent og sá fyrirvari þá gerður að þar sé um að ræða hlutfall þeirra sem leita að minnsta kosti einu sinni til baka í neyslu efnisins í tilraun sinni til að halda vegi sínum hreinum.
Sé litið til rannsóknar þeirra Taliu Klein, Daniel Terry og Blake Peck við Federation University Australia í Berwick þar í landi, sem þau gerðu grein fyrir í janúar 2023 í tímaritinu Journal of Addictive Diseases í grein sinni The experience of methamphetamine use disorder and the negative consequences of relapse – a qualitative study, komast þau að þeirri niðurstöðu að endurhvarfshlutfallið sé allt að 85 prósent.
Fylgdust höfundarnir með hópi neytenda sem glímdu við alvarlega metamfetamínfíkn, höfðu sótt sér meðferðarúrræði í meira en tólf mánuði auk þess að leita sér stuðningsmeðferðar (e. addiction support service) og upplifað endurhvarf til neyslu á fimmtán mánaða tímabili sem rannsókn þremenninganna náði til.
Þá má einnig líta til greinar Russ Scott við geðdeild West Moreton-fangelsisins í Brisbane í Ástralíu sem birtist í júlí 2023 í tímaritinu Psychiatry, Psychology and Law, en Scott spyr einfaldlega í fyrirsögn: Methamphetamine dependence in Australia – why is ‘ice’ (crystal meth) so addictive?
Greinir Scott þar frá allt að fimm vikna tímabili fráhvarfseinkenna sem neytendur kristalmetamfetamíns mega þola þegar þeir slíta sig frá neyslunni sem ýti svo harkalega við þeim til áframhaldandi neyslu („...underlie the negative reinforcement to continued methamphetamine use.“).
„Þetta hefur áhrif á taugaboðefni í heilanum og mikil röskun á þeim getur náttúrulega haft langvarandi áhrif,“ segir Adam, inntur álits á þeim alvarlega vítahring fíknar og fráhvarfseinkenna sem margir neytendur hinna sterkustu amfetamínefna sogast inn í án þess að fá rönd við reist.
Hafið þið á rannsóknarstofunni fengið inn fleiri sýni eða meira magn kristalmetamfetamíns til greiningar nú síðustu misseri en vanalegt var þar á undan?
„Þetta virðist koma svolítið í bylgjum,“ svarar Adam og kveðst hafa farið yfir tilfelli metamfetamíngreininga í lífssýnum sem hann og samstarfsfólk hans hafa fengið til meðferðar síðustu ár. „Þau virðast hafa náð hámarki um það bil árið 2021 og benda frekar niður á við síðan þá svo ég get ekki sagt að við sjáum aukningu í metamfetamíngreiningum á síðustu misserum, sem eru þá lífssýni úr ökumönnum og þess háttar,“ segir hann.
Nú er það alkunna að metamfetamínverksmiðjur erlendis springa gjarnan í loft upp og má þar nefna hjólhýsi og húsbíla vestanhafs auk þess sem hollenskir fjölmiðlar greindu frá því í júlí í fyrra að tíu manns hefðu látist í slíkum sprengingum það sem þá var af ári og fimm slasast. Hvað veldur þessum hættueiginleikum framleiðslunnar?
„Þetta ætti svo sem að eiga við um flesta fíkniefnaframleiðslu þar sem verið er að vinna með leysa sem eru eldfimir. Við framleiðsluna eru til dæmis hvatar gjarnan notaðir og þá getur vetnisgas myndast, eða önnur eld- og sprengifim gös, og ef unnið er í lokuðu rými geta þau auðveldlega safnast upp og svo er kannski brennari í notkun eða hiti og þá verður sprenging,“ segir Adam af framleiðslu sem líklega kostar nokkur hundruð mannslíf á ári á heimsvísu – og er þá eingöngu átt við framleiðsluferlið sem slíkt, neysla efnanna er svo allt önnur saga hvað mannslíf áhrærir.
Til að taka af öll tvímæli varðandi tölfræði þessa viðtals lætur Adam þess getið að efnafræðingar rannsóknarstofunnar leggi takmarkaða áherslu á aðgreiningu svokallaðra handhverfa metamfetamíns. Við grípum niður í skilgreiningu hans á handhverfu í viðtali við mbl.is í júní í fyrra:
Þegar amfetamín er búið til eftir þessari almennu ólöglegu leið myndast spegilmynd af sameindinni, í raun myndast tvær útgáfur sem eru spegilmynd hvor af annarri. Það sem er í [löglegu] lyfjunum er bara önnur myndin, það sem er í ólöglegu efnunum eru þær báðar. Þegar við náum að aðgreina þær í lífsýnum fáum við hugmynd um hvað fólk er að taka inn.
„Við erum bara að skoða handhverfur venjulegs amfetamíns vegna þess að þar ertu annars vegar með lyfjaformið, sem er löglegt við akstur ef einstaklingur er að taka efnið samkvæmt lyfseðli, og svo ólöglega götuamfetamínið, en við erum ekkert að spá í þetta með metamfetamín vegna þess að það er ekki notað sem lyf á Íslandi,“ segir Adam Erik Bauer réttarefnafræðingur að lokum um hina vísindalegu hlið amfetamínefna.