Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir örlitla aukningu á skjálftavirkni á Sundhnúkagígaröðinni og hægst hafi aðeins á landrisinu.
„Staðan hefur lítið breyst. Það er áfram aukin hætta á eldgosi og líkurnar fara vaxandi,“ segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hún segir erfitt að segja til um það hvenær það dragi til tíðinda. Það geti byrjað að gjósa á morgun en geti líka liðið tvær til þrjár vikur í að eitthvað gerist.
Sjöunda eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember 2023 lauk 9. desember og sýna líkanreikningar áframhaldandi kvikusöfnun. Er magn kviku undir Svartsengi komið í neðri mörk þess rúmmáls sem talið er að þurfti til þess að koma af stað næsta kvikuhlaupi eða eldgosi.
Jörð heldur áfram að skjálfa á Krýsuvíkursvæðinu og frá því á sjötta tímanum í morgun hafa mælst hátt í tíu skjálftar á svæðinu. Um smáskjálfta er að ræða og hefur sá stærsti mælst 1,7 að stærð.
„Þetta er algengt skjálftasvæði og það hafa verið að mælast margir skjálftar bæði við Kleifarvatn og í Krýsuvík. Við lesum ekkert sérstakt út úr þessu. Þetta er bara virkt svæði,“ segir Steinunn.