Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi hjá Vinstri grænum, segir að hann hafi ekki komið að neinum viðræðum enn sem komið er í þeim viðræðum sem nú eru í gangi á milli vinstriflokka í borginni. Hann á þó von á því að Líf Magneudóttir muni ráðfæra sig við hann og aðra í flokknum nú þegar viðræðurnar komast á formlegra stig.
„Annars yrði ég nú frekar svekktur,“ segir Stefán kíminn.
Hann segir eftir nokkru að sækjast að komast í meirihluta í borginni. Þó ekki sé innbyggt í sveitastjórnarlög að þar eigi að vera eiginlegur meirihluti og minnihluti þá hafa menn fært þá hefð af Alþingi að hátta málum þannig. Því sé meirihlutinn nær einráður og lítið sem ekkert hlustað á minnihlutann.
„Í borginni hefur sú hefð orðið að borgarstjóri hagar sér svolítið eins og mini-forsætisráðherra. Svo ertu með stjórn og stjórnarandstöðu. Afleiðingin af því er sú að meirihlutinn hverju sinni hefur öll völd. Það eru haldnir meirihlutafundir fyrir alla ráðsfundi og borgarstjórnarfundi þar sem menn ákveða niðurstöðu þess fundar áður en að honum kemur. Því þarf talsverðan sannfæringarkraft fyrir minnihlutann að hafa áhrif á afgreiðslu mála,“ segir Stefán.
Fyrir vikið sé auðvelt að upplifa það sem fulltrúi í minnihluta að „maður sé að tala við sjálfan sig.“
Þá segir hann jafnframt að sá munur sé á Alþingi og borgarmálum að almennt hafi fólk meiri áhuga á störfum þingsins. Hins vegar séu einungis tveir fundir í mánuði í borgarstjórn og þeir séu öðrum þræði „hálfgert leikrit“ sökum þess að búið er að ákveða niðurstöðu hans fyrir fram.
„Fundirnir eru langir og sannast sagna óbærilega leiðinlegir. Svo er „pínku frústrerandi“ þegar maður telur sig hafa saumað vel að meirihlutanum og sjá teljarann á Youtube útsendingunni sem sýnir að 20 hafi verið að horfa. Þar af veit maður að tíu eru starfsmenn í ráðhúsinu,“ segir Stefán.
Sanna Magdalena Mörtudóttir Sósíalisti og Líf Magneudóttir úr VG tilkynntu eftir að borgarstjórnin sprakk að þær væru í bandalagi ef til þeirra yrði leitað varðandi meirihlutaviðræður. Spurður hvort að slíkt sé til marks um það sem koma skal á vinstri vængnum þá gefur Stefán lítið út á það en segir flokkana hafa unnið vel saman í borgarstjórn.
„En ég get sagt að það mældist mjög vel fyrir hjá okkar fólki að þær hafi komið saman fram,“ segir Stefán.