Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokið rannsókn sinni á banaslysi í Grindavík 10. janúar á síðasta ári og vísað henni til embættis héraðssaksóknara.
Þar verður tekin ákvörðun um hvort ákært verði vegna málsins.
Fimm eru með réttarstöðu sakbornings í málinu.
Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við mbl.is
„Rannsóknin beindist að því ákvæði 215. greinar almennrar hegningarlaga er varðar manndráp af gáleysi og einnig lög um aðbúnað um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum,“ segir Úlfar.
Lúðvík Pétursson lést við störf þegar unnið var að því að bjarga húsi í Hópshverfi í Grindavík.
Verkið var unnið af verkfræðistofunni Eflu fyrir tilstilli Náttúruhamfaratrygginga Íslands (NTÍ).
Í skýrslu Vinnueftirlitsins um slysið er sérstaklega gerð athugasemd við það að ekki hafi verið framkvæmt áhættumat á aðstæðum, meðal annars á jarðfræðilegum aðstæðum á því svæði þar sem jörð gaf sig þegar Lúðvík var að störfum.
Verkfræðistofan Efla tók að sér verkið að beiðni NTÍ. Í því fólst meðal annars að ráða verktaka og skipuleggja framkvæmdir. Greiðslur komu aftur á móti frá NTÍ.
Efla hafði reglulegt eftirlit með framkvæmdum ásamt nokkrum öðrum sambærilegum verkum í bænum, sem fólst meðal annars í að aðlaga verklag eftir þörfum og aðstæðum á hverjum stað.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur minnst einn starfsmaður Eflu réttarstöðu sakbornings.
Uppfært: Fyrst var hermt að fjórir hefðu réttarstöðu sakbornings. Hið rétta er að fimm hafa þá stöðu, eins og að ofan er getið.