Rannsókn lokið í Grindavík: Fimm með stöðu sakbornings

Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að málið sé nú …
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að málið sé nú á borði héraðssaksóknara. Samsett mynd

Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokið rannsókn sinni á banaslysi í Grindavík 10. janúar á síðasta ári og vísað henni til embættis héraðssaksóknara.

Þar verður tekin ákvörðun um hvort ákært verði vegna málsins.

Fimm eru með réttarstöðu sakbornings í málinu.

Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við mbl.is

Manndráp af gáleysi til skoðunar

„Rannsóknin beindist að því ákvæði 215. greinar almennrar hegningarlaga er varðar manndráp af gáleysi og einnig lög um aðbúnað um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum,“ segir Úlfar.

Lúðvík Pétursson lést við störf þegar unnið var að því að bjarga húsi í Hóps­hverfi í Grinda­vík.

Verkið var unnið af verk­fræðistof­unni Eflu fyr­ir til­stilli Nátt­úru­ham­fara­trygg­inga Íslands (NTÍ).

Einn starfsmaður Eflu með stöðu sakbornings

Í skýrslu Vinnu­eft­ir­lits­ins um slysið er sér­stak­lega gerð at­huga­semd við það að ekki hafi verið fram­kvæmt áhættumat á aðstæðum, meðal ann­ars á jarðfræðileg­um aðstæðum á því svæði þar sem jörð gaf sig þegar Lúðvík var að störf­um.

Verk­fræðistof­an Efla tók að sér verkið að beiðni NTÍ. Í því fólst meðal ann­ars að ráða verk­taka og skipu­leggja fram­kvæmd­ir. Greiðslur komu aftur á móti frá NTÍ.

Efla hafði reglu­legt eft­ir­lit með fram­kvæmd­um ásamt nokkr­um öðrum sam­bæri­leg­um verk­um í bæn­um, sem fólst meðal ann­ars í að aðlaga verklag eft­ir þörf­um og aðstæðum á hverj­um stað.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur minnst einn starfsmaður Eflu réttarstöðu sakbornings.

Uppfært: Fyrst var hermt að fjórir hefðu réttarstöðu sakbornings. Hið rétta er að fimm hafa þá stöðu, eins og að ofan er getið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert