Vátryggingafélagi Íslands höfðu í gær borist um 100 tilkynningar um tjón sem hlaust af óveðrinu sem gekk yfir landið í síðustu viku.
Um 70 tilvik þar sem tjón varð á húsum eru komin á skrá. Sömuleiðis hefur verið látið vita um tjón á nokkrum tugum bíla. „Upplýsingarnar hafa verið að tínast í hús síðustu daga. Margar þeirra af Austurlandi, svo sem frá Stöðvarfirði og þar í kring, en þar virðist veðrið hafa verið verst miðað við tjón,“ segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir, forvarnafulltrúi hjá VÍS, í samtali við Morgunblaðið.
Einhverjir dagar gætu liðið þar til ljóst verður hvert umfang tjónsins af völdum veðursins var eða hvaða upphæðir eru í spilinu. Eftir er að vinna úr fyrirliggjandi tilkynningum, sem verður gert með því að yfirfara meðal annars myndefni sem tryggingatakar senda inn. Í sumum tilvikum sendir VÍS sitt fólk á staðinn til mats og ráðagerða; sérstaklega þegar tjón er mikið.
Á höfuðborgarsvæðinu urðu helst smærri tjón, enda náði veðrahamurinn þar líklega ekki þeim styrk sem varð víða annars staðar á landinu. Eitthvað var um að skjólgirðingar og yfirbyggðar svalir í heimagörðum hefðu losnað og fokið. Þá ber að geta þess að almennar húsatryggingar ná ekki til slíkra mannvirkja, nema þær séu partur af brunabótatryggingu eða þá tryggðar sérstaklega.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag