Var andlega og fjárhagslega búin á því

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra og eiginmaður hennar í …
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra og eiginmaður hennar í dómsal í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Aðalmeðferð er hafin í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur, mennta- og barnamálaráðherra, og eiginmanns hennar gegn ríkinu. Ásthildur mætti fyrir dóm og gaf skýrslu í morgun. 

Um er að ræða skaðabótamál þeirra hjóna gegn ríkinu vegna meintra lög­brota sýslu­manns­ins á höfuðborg­ar­svæðinu. Segja þau sýslu­mann ekki hafa sinnt lög­bundn­um skyld­um sín­um. 

Er embættinu gefið að sök að hafa ekki tekið tillit til fyrningar vaxta við úthlutun söluverðs eftir uppboð á heimili Ásthildar og eiginmanns hennar. 

Hófst málið árið 2016 þegar nauðungarsölubeiðni barst frá Arion banka.

Mátti „éta það sem úti frýs“

Ásthildur mætti fyrir dóm í morgun þar sem hún sagði þau hjónin hafa fengið tvær vikur til að bregðast við úthlutunargerð sýslumanns þegar hún var send til þeirra árið 2018. 

Ásthildur var á þeim tíma formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og segir það strax hafa komið í ljós að sýslumaður hafði ekki gert ráð fyrir fyrningu vaxta upp á tæpar 10,7 milljónir. Það hafi hjónin bent á. 

Sagði ráðherrann, en tók fram að það sé umorðað, að svör sýslumannsins hafi verið á þann veg að þau mættu „éta það sem úti frýs og fara í mál.“

Unnu málið í héraði 

Þá tók hún fram að fólk gæti alltaf gert mistök en þar sem sýslumaður hafi látið úthlutun standa, þrátt fyrir þeirra ábendingar, hafi um einbeittan brotavilja verið að ræða. 

Hjónin kærðu úthlutunargerðina í mars 2018 og unnu málið fyrir Héraðsdómi Reykjaness í júní sama ár. Kemur þó fram í tímalínu málsins að dómari hafi úthlutað hærri upphæð en skyldi. Arion banki hafi svo áfrýjað málinu til Landsréttar stuttu síðar sem sneri dómi Héraðsdóms Reykjaness við. 

Þá áfrýjuðu hjónin til Hæstaréttar sem tók ekki málið upp. Að sögn Ásthildar hafi það verið vegna þess að Hæstiréttur vildi ekki ómaka sig fyrir smáupphæð.

„Þetta er mikil upphæð fyrir venjulegt fólk,“ sagði Ásthildur fyrir dómi í morgun.

Vildi vekja athygli á málinu sem þingmaður 

Nauðungarsamningum um endurkaup á heimilinu var náð við Arion banka árið 2019 en að sögn Ásthildar tók bankinn ekki tillit til fyrningu vaxtanna. Afsalið fengu þau í janúar 2020 og samskiptum þeirra og Arion banka var þar með lokið. 

Ásthildur segir enga spurningu vera um það að ríkið hafi brotið á þeim hjónum. Málið hafi tekið langan tíma og tekið á. Sagðist hún fyrir dómi hafa upplifað að vera búinn á því bæði andlega og fjárhagslega eftir að málinu lauk 2020.

Ásthildur var svo kjörinn inn á þing fyrir hönd Flokks fólksins í Alþingiskosningunum árið 2021 og sagðist hún hafa strax í janúar 2022 haft samband við lögmann vegna málsins. 

Sagðist hún hafa viljað halda áfram með málið eftir að hún var kjörinn inn á þing þar sem hún taldi að það myndi vekja meiri athygli ef þingmaður myndi stefna ríkinu frekar en kennari, sem er það sem hún starfaði við í upphafi málsins.

Prinsippmál

Sagði Ásthildur fyrir dómi í morgun að um „prinsippmál“ væri að ræða. Hún vildi að sjálfsögðu fá fjárhæðina til baka en málið sneri líka að hvernig kerfið er gagnvart fólki. 

„Kerfið á að verja fólkið í landinu. Ekki eigin mistök,“ sagði Ásthildur í morgun. 

Þá sagði hún sýslumanninn bera ábyrgð í málinu. Honum hafi borið að taka tillit til vaxtanna í sinni úthlutun en hefði ekki gert það að eigin frumkvæði. Einnig hafi hann ekki gert það þegar búið var að benda á það en benti Ásthildur á að vextir væru annað hvort fyrndir eða ekki.

„Það stendur í lögum að sýslumanninum beri að sinna þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert