Álft, sem líklega hefur flogið á þakkant eða loftnet í rokinu fyrr í mánuðinum, dvelur nú í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum eftir að gert var að sárum hennar.
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn segir svo frá á samfélagsmiðlum.
Það var Guðmundur Fylkisson, forsvarsmaður verkefnisins Project Henrý, sem kom með álftina í garðinn og þar hefur hún fengið tíma og aðstöðu til að jafna sig. Project Henrý er samfélagsþjónustuverkefni sem snýr að því að hlúa að fuglinum á Læknum í Hafnarfirði.
Í færslu húsdýragarðsins segir að um sé að ræða karlfugl og hafi hann hlotið gælunafnið Viðar. Bíður hann þess að verða nógu hress til að yfirgefa garðinn en eins og segir í færslunni ræður hann brottfarartíma sínum sjálfur.