Prófessor í landnýtingu vill staldra við og endurmeta þá miklu skógrækt sem nú er verið að ráðast í undir formerkjum kolefnisbindingar. Hún segir einskonar „gullgrafaraæði“ hafa gripið um sig þar sem jarðir eru keyptar upp til skógræktar.
Anna Guðrún Þórhallsdóttir var gestur Dagmála í vikunni og nefndi sem dæmi að búið væri að semja um að á jörðinni Skálholti yrði nú gróðursettur kolefnisskógur. Hún hefur stórar áhyggjur af Skálholti, bæði sem sögustað og ekki síst vegna mögulegra fornminja sem þar kunna að vera í jörðu. „Þetta er ekki bara rautt blikkandi ljós. Þetta er katastrófa,“ segir hún.
Eins og kom fram í frétt á mbl.is og hægt er að skoða hér að neðan, þá hefur Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri kallað eftir því að „skógræktargrænþvotti“ verði hætt tafarlaust. Fornleiðafræðingar hafa áhyggjur af þeirri miklu skógrækt sem fyrirhuguð er víða um land.
Að ofan fylgir brot úr viðtalinu við Önnu Guðrúnu þar sem hún vekur máls á því að mögulega séum við að fara of geyst þegar kemur að skógræktaráformum.
Anna Guðrún stóð fyrir rannsókn síðasta sumar þar sem kannaður var munurinn á kolefnisbindingu í jarðvegi, annars vegar í beitarlandi og hins vegar í friðuðu landi, eða skógræktarreitum. Munurinn var afgerandi hversu meiri kolefnisbinding er í beitarlandi. Þessar niðurstöður koma heim og saman við rannsóknir í öðrum löndum. Þetta leiðir hugan að því hvort endurmeta þurfi útreikninga á kolefnisbindingu.
Dagmálsviðtalið við Önnu Guðrúnu geta áskrifendur Morgunblaðsins séð í heild sinni með því að smella á linkinn hér að neðan.