„Það gengur mjög hægt að finna lausn á þessu og það er hvimleitt,“ segir Vigfús Þorsteinsson, formaður Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR.
Talsverðrar óánægju hefur gætt með íþróttahús félagsins síðustu misseri, en þar hefur verið leki sem erfitt virðist að komast fyrir. Einn stjórnarmanna vakti máls á þessu í íbúahópi á Facebook í síðustu viku og lýsti því þannig að knatthús félagsins og íþróttahús hefðu verið hriplek frá upphafi enda væru þau meingölluð að mörgu leyti.
Um er að ræða tvö hús, fjölnotahús sem vígt var haustið 2020 og íþróttahús sem vígt var síðsumars 2022. Vigfús segir að leki hafi komið upp í íþróttahúsinu þegar lekið hafi meðfram brunalúgu. Tekist hafi að komast fyrir þann leka. Hins vegar hafi gengið erfiðlega að stöðva leka í viðbyggingu við fjölnotahúsið.
„Það hefur gengið mjög erfiðlega að leysa það vandamál. Menn hafa farið þar upp og reynt en án árangurs. Síðan er farið að leka niður á neðri hæð viðbyggingarinnar, sem er mjög slæmt. Þar er meðal annars lyftingaaðstaða og búningsklefar og það veldur okkur áhyggjum. Þetta er mikið notað hús. Ef loka þyrfti lyftingaaðstöðunni hefði það gríðarlega mikil áhrif á félagið,“ segir Vigfús, sem furðar sig á því hversu flókið það virðist vera að stöðva leka í til þess að gera nýju húsi.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag