„Á ekki að gæta hagsmuna skattgreiðenda í þessu máli?“

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eyþór Árnason

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi marga hlusta eftir afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðherra á því hvernig styrkjamálið svokallaða væri og verði afgreitt.

Sagði hann að á sama tíma og öldruðum, öryrkjum og litlum atvinnurekendum, sem í góðri trú hefðu tekið við greiðslu eða gert minni háttar mistök við virðisaukaskattskil, væri gert að endurgreiða, jafnvel undir hótunum sekta, þá þyrftu stjórnmálaflokkar ekki að gera það.

Gerði hann því skóna að það væri ekki það sama að vera Jón og séra Jón í íslensku samfélagi.

„Ég veit að fólk er að bíða eftir þessu fordæmi, hverjar eru afleiðingarnar? Það er mjög mikilvægt því að það getur ekki verið að við séum að hugsa hér hvort séra Jón tákni stjórnmálaflokkanna og svo bara Jón sem er almenningur, atvinnurekendur, öryrkja og eldri borgara. Þannig að við hljótum að spyrja um hverjar afleiðingarnar er

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Árni Sæberg

Kröfur ríkissjóðs vegna ofgreiddra fjármuna

Bergþór Ólafsson þingmaður Miðflokksins var málshefjandi og tók í svipaðan streng.

„Hefur fjármálaráðherra rannsakað og leitað álits á því hvaða afleiðingar ákvörðun hans gæti haft á aðra stjórnsýslu, jafnvel dómaframkvæmd, að ógleymdum öllum kröfum ríkissjóðs vegna ofgreiddra fjármuna?“ spurði Bergþór.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eyþór

Engar afleiðingar

Daði Már Kristófersson, fjármála og efnahagsráðherra, svaraði því til að stundum væri skýr endurgreiðslukrafa í lögum en stundum ekki. Í þessu tilviki hafi ekki verið skýr krafa og því leitað álits lögmanna sem hafi komist að því að ekki bæri að skila styrkjunum.

„Er það matskennt hvenær slík krafa skapast og hvenær ekki slíkt mat fór fram. Niðurstaða er komin úr því. Komi sambærilegt mat aftur upp verður fylgt sambærilegri aðferðafræði,“ segir Daði Már.

„Ég tel að afleiðingarnar, og það kemur raunar fram í þessu ytra mati (lögfræðiáliti), að þær séu engar í ljósi þess að um er að ræða mat á endurgreiðslu skyldu og almennri túlkun stjórnsýslulaga og treysti því að sá grunnur sé nægilega sterkur eins og hann hefur verið,“ segir Daði Már.

Hvað með dómstólaleiðina?

Guðlaugur Þór beindi þá þeim orðum til Daða að honum bæri að leita allra leiða til að gæta hagsmuna skattgreiðenda í þessu máli.

„Ætlar ráðuneytið ekki að láta á þetta reyna fyrir dómstólum? Á ekki að gæta hagsmuna skattgreiðenda í þessu máli?“ spyr Guðlaugur Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert