„Mér líst mjög vel á það og er glöð yfir því að hún hafi gefið kost á sér til forystu í Sjálfstæðisflokknum. Ég held að það sé styrkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá að velja sér forystu á þessum tímapunkti, ræða næstu skref og framtíðina og hvernig við ætlum að ná meiri árangri. Partur af því er að velja sér forystu og snúa svo bökum saman að loknum landsfundi.“
Þetta segir segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður í samtali við Morgunblaðið, þegar leitað er viðbragða hennar við framboði Guðrúnar Hafsteinsdóttur til formennsku í flokknum, en hún kunngjörði þá ætlan sína á fundi sl. laugardag.
Spurð hvort hún búist við jafnri baráttu þeirra á milli segist Áslaug Arna ekki gera ráð fyrir öðru.
„Guðrún er flottur frambjóðandi,“ segir hún.
„Ég er ennþá að hugsa málið, en íhuga það mjög alvarlega,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, en hún hefur verið orðuð við framboð til varaformanns. Hún segir niðurstöðu að vænta fyrr en seinna. Diljá segist hafa fengið mikla hvatningu og stuðning og vera að ræða við flokksmenn.
„Ég er að hugsa málið og meta stöðuna,“ segir Jón Gunnarsson alþingismaður, spurður hvort hann hyggist gefa kost á sér til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hann kveðst munu kunngjöra ákvörðun sína þegar nær dregur landsfundi. Hann kveðst ekki hyggja á framboðsfundi eða kosningaferðalög um landið, fólk þekki hann og viti fyrir hvað hann standi í stjórnmálum.
Jón segist telja mikilvægt að sú forysta sem kosin verður á landsfundinum hafi víða skírskotun til flokksmanna sem og allra kjósenda, sé reynslumikil og til þess fallin að sameina flokksmenn undir einu merki.
„Ég hef ekki útilokað neitt. Undanfarna daga hefur minn tími farið í að koma mér inn í þingstörfin. Það er enn góður tími til landsfundar, ég er í góðum samtölum við flokksmenn,“ segir Jens Garðar Helgason alþingismaður.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag