Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokks Íslands í borginni, segir ekki tímabært að ræða dagsetningar myndunar nýs meirihluta í borgarstjórn.
„Við erum auðvitað bara að vinna þetta eins hratt og við getum og samt að vanda okkur auðvitað,“ segir Sanna í samtali við mbl.is í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Hún segir viðræður ganga vel og að bæði samtalið og vinnan hafi verið góð í dag.
„Við byrjuðum snemma í morgun og höfum verið hér í dag að kalla eftir gögnum og upplýsingum.“
Um gagnrýni Helgu Þórðardóttur og forvera hennar í Flokki fólksins á skipulagsmál í borginni, rekstur borgarinnar og forystu Samfylkingar og Pírata sérstaklega, og hvort unnið hafi verið að því að slípa þá gagnrýni niður, segist Sanna frekar líta á það sem sameinar flokkana sem nú séu í viðræðum. Það séu félagslegar áherslur.
„Auðvitað erum við að ræða ýmislegt sem er undir starfi og rekstri borgarinnar en fyrst og fremst mikilvægi þess að ganga út frá hagsmunum almennings og setja fólkið í fyrsta sæti og fólk fram yfir fjármagn.“
Spurð út í gagnrýni Einars Þorsteinssonar á viðræðurnar og skort á ákalli um samstarfið sem flokkarnir fimm vinna nú í að koma á koppinn, segir Sanna að hópurinn hafi ekki lesið mikið af því sem fráfarandi borgarstjóri hafi verið að tjá sig um enda verið mjög einbeittur á málefnin og málin og hvað þurfi að gera á næstu mánuðum.
„Ef það er verið að tala um einhverjar hugmyndir eða gagnrýni sem hann kom fram með varðandi að það væri ekki verið að kalla eftir þessu, þá erum við núna oddvitar fimm flokka að ræða saman og á bak við okkur eru 12 borgarfulltrúar, sem sagt meirihluti innan borgarstjórnar,“ segir Sanna.
Að lokum er Sanna Magdalena spurð út í kryddpíuviðurnefnið, sem gárungarnir hafa reynt að festa við hópinn.
Líst ykkur vel á þetta?
„Já ég meina, það er bara gaman að hafa gaman af lífinu. Samt er athyglisvert að ef við værum öðruvísi samsettur hópur, væri þá verið að leitast við að setja nafn yfir hópinn? Ég meina við allar, þessar fimm konur, erum með falleg nöfn en já, já, það má hlæja að þessu,“ segir Sanna og hlær.