Svokallaður spretthópur hefur verið skipaður um endurskoðun reglna um endurgreiðslu námslána í námslánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, forvera Menntasjóðs námsmanna.
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra skipaði þrjá fulltrúa í spretthópinn en hópnum eru gefnir þrír mánuðir til að skila niðurstöðum sínum og tillögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.
Í tengslum við kjarasamninga vorið 2024 gaf þáverandi ríkisstjórn út yfirlýsingu þar sem hún hét því að ráðast í breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna með það að markmiði að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Breytingarnar áttu að gagnast þeim sem hófu lánshæft nám eftir 2020 – tóku H-lán.
Hópnum er ætlað að vinna að því að tryggja jafnræði á milli greiðenda eldri lána LÍN og nýrri H-lána og er verkefni hans að kortleggja áhrif endurgreiðslufyrirkomulags eldri lána LÍN með tilliti til áhrifa á ævitekjur. Sérstaklega er hópnum falið að skoða áhrif mögulegra afskrifta í tengslum við eftirlaunaaldur og stöðu lántakenda með hæstu lánin.
Markmið breytinga sem gerðar voru við stofnun Menntasjóðs námsmanna var að tryggja að endurgreiðslu námslána lyki fyrir eftirlaunaaldur sem á ekki við um fyrra kerfi LÍN og því er talið mikilvægt að skoða samræmi þar á milli, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Í spretthópnum sitja:
Sveinn Andri Matthíasson, formaður – án tilnefningar
Sigrún Brynjarsdóttir – tilnefnd af Bandalagi háskólamanna
Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson – tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Hópnum ber að skila niðurstöðum sínum og tillögum, ef einhverjar eru, eigi síðar en 12. maí 2025.
Þá hefur menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra skipað fjóra fulltrúa í stjórn Menntasjóðs námsmanna en hlutverk stjórnar er m.a. að móta áherslur í starfi sjóðsins, hafa eftirlit með starfsemi og fjárreiðum hans, gera tillögur til ráðherra að úthlutunarreglum og skera úr um vafamál.
Lögum samkvæmt skipar nýr ráðherra málaflokksins fjóra fulltrúa í stjórn Menntasjóðsins og taka þeir sæti þeirra fulltrúa sem fyrri ráðherra skipaði án tilnefningar, en núverandi stjórn situr til 30. júní 2026, að því er fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðs.