„Er bráðavandinn virkilega ekki ljós?“

Jón Pétur segir engan sóma af þingmálaskrá hvað menntun og …
Jón Pétur segir engan sóma af þingmálaskrá hvað menntun og líðan barna varðar. Samsett mynd

Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að í þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar sé ekki brugðist við bráðavanda barna og ungmenna í málefnum menntunar og andlegrar heilsu.

Í jómfrúarræðu sinni á Alþingi segir hann neyðarástand ríkja og nefnir niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar og PISA-könnunarinnar sér til stuðnings.

„75 prósent stúlkna í 10. bekk finna fyrir kvíða vikulega eða oftar, þar af 34 prósent daglega. 40 prósent stúlkna í 10. bekk finna fyrir depurð vikulega eða oftar, þar af 17% daglega,“ nefnir Jón Pétur.

„Er bráðavandinn virkilega ekki ljós?“

Segir hann engan sóma af þingmálaskránni hvað þessa þessa málaflokka varðar.

„Ungmenni eru meira einmana en elsti aldurshópurinn. Er þetta ávarpað í þingmálaskrá? Svarið er nei.“

Börn eigi ekki að gjalda stöðu sinnar eða stéttar

Þá bendir hann á að tæpur helmingur fimmtán ára drengja og þriðjungur stúlkna á sama aldri búi ekki yfir grunnfærni í lesskilningi.

„Og til að bíta höfuðið af skömminni eru tæp 30 prósent fimmtán ára barna ekki með grunnfærni í skapandi hugsun.“

Segir hann vinnubrögð nýrrar ríkisstjórnar auka stéttaskiptingu og aðra misskiptingu í samfélaginu. Börn eigi ekki að gjalda stöðu sinnar eða stéttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert