Fjölskyldufaðir fékk 20 milljóna vinning

Fjögurra barna fjölskyldufaðir hlaut 20 milljóna skattfrjálsan vinning í Happdrætti Háskóla Íslands í síðasta útdrætti. 

Manninum var tilkynnt um vinninginn í vikunni og í tilkynningu frá happdrættinu kemur fram að það hafi aldrei hvarflað að honum að hann myndi nokkurn tímann vinna svo háa upphæð og því væri hann ekki búinn að velta fyrir sér hvað hann ætlaði að gera við peninginn.

Hins vegar nefndi hann að þau hjón ættu fjögur börn og að það væri stórafmæli á næsta ári. Því yrði líklega hluta vinningsins varið í eitthvað skemmtilegt í tilefni afmælisins.

Auk fjölskylduföðurins hlutu fleiri vinninga í síðustu viku. Einn heppinn miðaeigandi vann 2,5 milljónir króna og átta miðaeigendur unnu eina milljón króna hver. Alls námu vinningar kvöldsins tæpum 160 milljónum og skiptist sú upphæð á milli 4.104 miðaeigenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert