Halla Tómasdóttir afhenti í fyrsta sinn heiðursverðlaun Vísinda- og nýsköpunarakademíunnar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.
Verðlaunin, sem voru tvenn talsins, voru afhent verðlaunahöfum er skarað hafa fram úr í íslensku samfélagi á sviðum vísinda og nýsköpunar.
Verðlaunahafar voru þeir Jón Atli Benediktsson, rektor og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, fyrir störf sín á vísindasviði og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, frumkvöðull og stofnandi heilbrigðistæknifyrirtækisins Kerecis, fyrir frumkvöðlastörf.
Jón Atli er eini vísindamaðurinn sem starfar á Íslandi á virtum alþjóðlegum lista Clarivate yfir áhrifamestu vísindamenn heimsins og hefur verið á þeim lista, fyrir rannsóknir sínar á sviði fjarkönnunar, sjö ár í röð.
Vert er að nefna að umræddur listi nær til eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem hvað mest er vitnað til í vísindagreinum er birtar eru í alþjóðlegum tímaritum.
Jón Atli er einnig höfundur einnar fræðibókar og yfir 400 ritrýndra vísindagreina og hefur sjálfur ritstýrt fræðitímariti.
Þá hefur hann hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir vísindastörf sín og meðal annars verið forseti Aurora, samstarfsnets evrópskra háskóla sem hafa það að markmiði að auka vægi nýsköpunar og rannsókna í samfélögum sínum.
Guðmundur Fertram er frumkvöðull og einn afkastamesti uppfinningamaður Íslands, en hann er að baki fleiri en 200 einkaleyfum og einkaleyfisumsóknum.
Þá er hann stofnandi og forstjóri Kerecis, heilbrigðistæknifyrirtækis er notar fiskroð til að lækna sár og skaðaðan líkamsvef. Sáraroð fyrirtækisins er einkaleyfavarið og er meðal annars markaðsleiðandi í Bandaríkjunum.
Kerecis var selt danska fyrirtækinu Coloplast fyrir 1,3 milljarða dala árið 2023 og varð þar með fyrsti íslenski einhyrningurinn, en einhyrningar eru óskráð fyrirtæki sem ná eins milljarðs bandaríkjadala verðmæti í hlutabréfaviðskiptum. Þá hefur fyrirtækið hlotið þó nokkur verðlaun.
Guðmundur hefur hlotið viðurkenningar fyrir nýsköpun áður og hefur meðal annars verið útnefndur frumkvöðull og viðskiptamaður ársins og hlotið útflutningsverðlaun forseta Íslands.
Afhending dagsins markar fyrsta skipti sem verðlaunin eru veitt í nafni nýrrar Vísinda- og nýsköpunarakademíu en hún var stofnuð á grunni Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright, sem staðið hefur að slíkri verðlaunaafhendingu frá árinu 1968.
Vísinda- og nýsköpunarakademían sækir fyrirmynd sína til nágrannalanda á við Norðurlöndin, Bretland og Bandaríkin.
Verðlaunahafar, sem kallaðir eru æsir og ásynjur, hittast við hverja verðlaunaafhendingu og eiga allir sæti í Vísinda- og nýsköpunarakademíunni.
Markmið Vísinda- og nýsköpunarakademíunnar eru að verðlauna framúrskarandi afrek í vísindum og nýsköpun og vera vettvangur samskipta milli vísindamanna, frumkvöðla, atvinnulífs og háskólasamfélags.
Vonast er einnig til þess að akademían hafi áhrif á stefnumótun stjórnvalda á sviðinu, með því að vera málsvari vísinda og nýsköpunar í íslensku samfélagi.
Leggur hún því áherslu á mikilvægi vísinda og nýsköpunar fyrir þjóðina og stefnir þannig að aukinni virðingu við vísindafólk og frumkvöðla.