Framkvæmdir við fyrirhugaða landfyllingu við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn hafa verið stöðvaðar til bráðabirgða að kröfu Brimbrettafélags Íslands. Á þetta féllst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en í úrskurðinum segir að ef framkvæmdir yrðu ekki stöðvaðar yrði kæra félagsins þýðingarlaus þar sem búið væri að raska því svæði sem kæran snýst um.
Málið snýst um framkvæmdir við tæplega 1 ha landfyllingu sem bærinn vill ráðast í frá núverandi sjóvörn að stórstraumsfjöruborði og tengjast núverandi athafnasvæði syðst á hafnarsvæðinu. Heildar magn landfyllingar var áætlað um 27.000 rúmmetrar og í grjótkápu um 10.000 rúmmetrar til viðbótar.
Hefur framkvæmdin verið mjög umdeild, sérstaklega meðal brimbrettafólks, en svæðið er eitt hið vinsælasta og besta fyrir brimbrettaiðkun á landinu. Er sérstaklega vísað til Aðalbrotsins, sem talið er vera einstakt öldusvæði á landsvísu.
Bærinn segir að framkvæmdin sé hluti af breytingum og endurbótum sem hafi átt sér stað á hafnarsvæði bæjarins og að höfnin sé undirstaða atvinnulífs og þróunar í bænum. Undanfarið hafi hafnarstarfsemi aukist og sveitarfélagið leggi áherslu á að efla þjónustu við hafnsækna starfsemi.
Brimbrettafélagið hafði kært að framkvæmdirnar væru ekki umhverfismatsskyldar með tilheyrandi möguleikum fyrir almenning að hafa áhrif á skipulagsferlið. Áður hafði Skipulagsstofnun tilkynnt bænum að ekki væri þörf á umhverfismati. Er málið því til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni, en sú skoðun er enn á frumstigi.
Í ljósi þess að framkvæmdirnar við landfyllinguna áttu aðeins að taka þrjá mánuði var ljóst að ekki hefði þýðingu að fjalla um málið efnislega nema að tryggt væri að ekki yrði farið í framkvæmdir á meðan málið væri til úrlausnar. Féllst úrskurðarnefndin því á að stöðva framkvæmdirnar tímabundið.
Ólafur Pálsson, formaður Brimbrettafélags Íslands, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða stund milli stríða. „Þetta gefur okkur aðeins lengri tíma,“ segir hann, en bætir við að hann sé eftir sem áður ansi hræddur um að niðurstöður nefndarinnar geti verið neikvæðar fyrir brettafólk.
Hann tekur þó fram að það hafi verið mjög jákvætt að sjá að verktakar hafi hætt framkvæmdum í gær þegar þessi úrskurður kom. Hann segir að nú taki við tími þar sem nefndin muni fara í gagnaöflun og á hann von á að tímaramminn fram að úrskurði verði kannski nokkrar vikur.
„Þetta á að vera nokkuð svart á hvítu hvernig staðan er. Við með okkar staðreyndir og Ölfus með sínar,“ segir Ólafur.
Segir hann málið snúast um það hvernig áhrif landfyllingarinnar á ölduna séu, en skiptar skoðanir séu um það hvort og þá hvernig áhrifin á ölduna gætu verið.
Bendir hann á að bærinn hafi í sinni vinnu stuðst við mat verkfræðistofu hér á landi sem telji að áhrifin á ölduna verði engin. Hins vegar hafi Brimbrettafélagið fengið erlenda sérfræðinga til að meta áhrifin og þeirra útreikningar bendi til þess að áhrifin séu augljóslega mikil.
„Við vonum til að það verði núna farið dýpra í þetta mál,“ segir Ólafur og bætir við að lokum að best væri þó ef félagið og sveitarfélagið gætu náð sátt sem allir sættu sig við. Það væri markmið félagsins og eitthvað sem hann telur sannarlega möguleika á.