„Fyrirvarinn verður stuttur“

Nokkrir jarðskjálftar, vel yfir 2 að stærð, hafa mælst á …
Nokkrir jarðskjálftar, vel yfir 2 að stærð, hafa mælst á Reykjaneshryggnum í nótt og í morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Nokkrir jarðskjálftar, vel yfir 2 að stærð, hafa mælst á Reykjaneshryggnum í nótt og í morgun.

Sá stærsti mældist 2,9 á öðrum tímanum í nótt og á tíunda tímanum í morgun varð skjálfti af stærðinni 2,8.

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að skjálftar langt úti á sjó á Reykjaneshryggnum séu algengir og um hefðbundna virkni sé að ræða við flekaskilin.

„Skjálftar um 3 eða stærri eru algengir þarna og það er ekki um neina hrinu að ræða þó svo að það hafi mælst fimm til sex skjálftar síðasta sólarhringinn,“ segir Bjarki.

Hann segir að staðan við Sundhnúkagígaröðina sé óbreytt. Enn þá séu að mælast nokkrir smáskjálftar en þrír skjálftar hafa mælst á svæðinu síðustu tólf klukkutímana og áfram mælist landris þótt hægt hafi á því.

Getur byrjað að gjósa eftir hálftíma

Bjarki segir að vel sé fylgst með stöðu mála við Sundhnúkagígaröðina og að áfram sé aukin hætta á eldgosi.

„Við vitum ekki hvenær það verður. Það getur byrjað að gjósa eftir hálftíma eða hálfan mánuð. Þetta er bara bið eftir að eitthvað gerist en fyrirvarinn verður stuttur og ekki mikil skjálftavirkni,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert