Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla hefur fengið nýjan starfsmann, Gunnar Þorsteinsson, sem rafhlöðuverkfræðing og hóf hann störf í Fremont, skammt frá San Francisco í Kaliforníu, í liðinni viku.
Hjónin Gunnar og Lovísa Falsdóttir fluttu ásamt þremur börnum þeirra frá New York, þar sem þau bjuggu í rúm fjögur ár vegna framhaldsnáms hans í orkuverkfræði í Columbia-háskóla, en síðan tók hann fyrir rafhlöðuverkfræði í doktorsnámi sínu og brautskráðist úr því fyrir skömmu. Hann segir að ýmislegt hafi komið til greina í framhaldinu og þegar möguleikinn hafi opnast hjá Tesla hafi verið erfitt að segja nei. „Tesla er besta fyrirtæki á mínu sviði í heiminum og starfið er því einstakt tækifæri.“
Ævintýrið byrjaði með námi í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. „Það er í fremstu röð á heimsvísu,“ staðhæfir Gunnar og vísar til þess að Ísland sé mekka fræðigreinarinnar með öll náttúruöflin í bakgarðinum. Það hafi komið sér vel að hafa lært hjá mönnum eins og Magnúsi Tuma Guðmundssyni og Páli Einarssyni. Eftir að hafa unnið í jarðhitageiranum í þrjú ár hafi hugurinn beinst að námi í endurnýjanlegri orku á alþjóðasviðinu og námið í Columbia-háskólanum hafi smellpassað.
Gunnar hefur ekki enn hitt Elon Musk eiganda Tesla. „Hann er forstjóri fyrirtækisins og ég skrifaði samning beint við hann en ég er í stórri tjörn og hann kemur ekki beint að hverri ráðningu.“
Starf Gunnars hjá Tesla felst í hluta framleiðsluferlisins sem kallast myndun. „Það er mikilvægasta skrefið í framleiðsluferlinu,“ segir hann. Eftir að rafhlöðurnar hafi verið settar saman þurfi að framkvæma mælingar á þeim öllum, hundruðum milljóna á hverju ári, til að tryggja að þær standist þær kröfur sem gerðar séu varðandi afl, getu og orku sem þær geti geymt. Nokkur þúsund rafhlöður séu í hverjum bíl og ef ein virki ekki rétt verði varan verri. „Það eru gerðar mjög stífar gæða- og öryggiskröfur,“ leggur hann áherslu á. Í öðru lagi sé samsett rafhlaða ekki tilbúin fyrr en en búið sé að hlaða og afhlaða hana nokkrum sinnum. „Þetta eru heilmikil vísindi og rannsóknir á þessu mjög svo afmarkaða ferli í líftíma rafhlöðunnar voru hluti af doktorsverkefni mínu.“
Gunnar segir spennandi að þróa sig áfram sem verkfræðing með því að vinna við það sem hann hafi lært í framhaldsnáminu. Tesla hafi þorað að hugsa hlutina upp á nýtt og gaman sé að taka þátt í því ferli.
Um 40 manns sjá um vél- og hugbúnaðinn og Í teymi Gunnars, sem velur ferlana, eru sjö manns að honum meðtöldum, en teymi hans vinnur náið með öðrum teymum. „Við erum í miðju framleiðsluferlisins – erum miðpunkturinn.“