Sá óvenjulegi atburður átti sér stað að skipta þurfti út varaforseta á þingi. Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar og 6. varaforseti, vék fyrir Hildi Sverrisdóttur, en röðun varaforsetanna breyttist einnig. Um tímabundna ráðstöfun er að ræða.
Kemur þetta til vegna mistaka við útreikning á skiptingu embætta milli flokka, þar sem embættum Samfylkingarinnar var einu ofaukið á kostnað Sjálfstæðisflokksins.
Sex varaforsetar voru kjörnir 4. febrúar síðastliðinn þegar þing kom saman í fyrsta skipti. Breytingin nú nær ekki aðeins til mannvals heldur einnig röðunar.
„Það sem gerðist var að það var rangt skipað í forsætisnefnd við þingsetningu þar sem Samfylkingunni var látið í té sæti sem með réttu var Sjálfstæðisflokksins. Þar sem þetta kemur upp eftir að það var búið að skipa í allar nefndir er þetta tímabundin ráðstöfun að ég setjist í forsætisnefnd fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, þar til það er hægt að skipa upp á nýtt í hlutverk og nefndir,“ segir Hildur.
Hún segir skiptingu embætta vera ákveðna heild sem erfitt sé að gera eina breytingu á án þess að það kalli á aðra breytingu annars staðar og svo koll af kolli.
„Þó að það sé bara tímabundið finnst mér svo sannarlega mikill heiður að fá að setjast í þennan virðulega forsetastól Alþingis og er bara smá spennt að slá í fyrsta sinn í bjölluna þegar háttvirtir kollegar mínir hafa talað of lengi eða eru á einhvern hátt ekki að fylgja reglunum á okkar góða háa Alþingi,“ segir Hildur.
Varaforsetar eru nú:
Áður voru varaforsetar þannig skipaðir: