Lántakar töpuðu en Neytendastofa vann gegn bönkum

Varða málin kröfu um endurgreiðslu á ofgreiddum vöxtum lána.
Varða málin kröfu um endurgreiðslu á ofgreiddum vöxtum lána. Samsett mynd

Landsréttur sneri við dómi héraðsdóms í dag og dæmdi Neytendastofu í vil, en á sama tíma dæmdi Landsréttur lántökum í þremur öðrum málum í óvil gegn viðskiptabönkunum þremur. 

Varða málin kröfu um endurgreiðslu á ofgreiddum vöxtum lána með breytilegum vöxtum og eru milljarðar undir sem bankarnir voru sakaðir um að hafa ofrukkað.

Neytendastofa rekur öll málin fjögur, en aðeins eitt er höfðað í nafni hennar. Neytendastofa vann mál sitt sem höfðað var á hendur Íslandsbanka en sú niðurstaða er í andstöðu við niðurstöðu héraðsdóms. Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki unnu hin málin en Landsbankinn hafði tapað sínu máli í héraði.

Mál er varða skilmála lána með breytilegum vöxtum

Málið má rekja til þess að Neytendastofa ásamt lántakendum höfðaði sex mál í heildina á hendur þremur bönkum; Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans. Krafist var endurgreiðslu á meintum ofgreiddum vöxtum. 

Bankarnir voru eins og áður segir sýknaðir í öllum málunum nema einu í Héraðsdómi. Héraðsdómur dæmdi Landsbankann til þess að endurgreiða tveimur lántakendum ofgreidda vexti vegna láns með breytilega vexti sökum þess að skilmálar bankans voru taldir ósamrýmanlegir lögum um neytendalán.

Landsbankinn þurfti í héraði að greiða lántakendum samanlagt rúmlega 230 þúsund krónur en talið var að dómurinn gæti hugsanlega haft víðtækt fordæmisgildi og varðað allt að 70 þúsund lán að sögn Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna. Breki gaf strax út að þeim málum sem ekki voru dæmt lántakendum í vil yrði áfrýjað. 

Ríkið mögulega bótaskylt

Við málarekstur í héraði var leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Álitið var afgerandi á þann hátt að skilmálar lána með breytilegum vöxtum væru óskýrir og almennur lántakandi gæti ekki skilið þá útreikninga sem vextirnir byggðu á. 

Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður lántakenda í málunum, hefur haldið því fram að ríkið gæti hugsanlega orðið skaðabótaskylt vegna málsins sökum þess að Evróputilskipun um fasteignalán var ranglega innleidd inn í íslenskan rétt og leiddi því ekki af sér þá vernd neytenda sem ætlast var til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert