Ósammála kollegum sínum um Bárðarbungu

Hann segist ekki sammála því sem fram hefur komið í …
Hann segist ekki sammála því sem fram hefur komið í fjölmiðlum og verið sett fram af kollegum hans um Bárðarbungu. mbl.is/RAX

Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði, segir virknina í Bárðarbungu ekki gefa ástæðu til að óttast mjög.

Mikil skjálftahrina varð í Bárðarbungu í janúar og hafði slík virkni ekki sést frá ár­inu 2014, þegar eld­gos braust út í eld­stöðva­kerf­inu og kom upp í Holu­hrauni.

Ef aukin virkni í Bárðarbungu leiðir til eldgoss telur Þorvaldur líklegast að það verði lítið gjóskugos, af svipaðri stærð og þjóðin þekkir frá Grímsvötnum.

„Slík gos eru ekkert að valda neinum stórum usla.“

Rýna þarf gögnin betur

Aðspurður segir hann erfitt að segja til um hvort kvikuinnskot hafi orsakað virknina í Bárðarbungu í janúarmánuði.

Möguleiki sé alltaf á kvikuhreyfingu við eldstöðvar en hvort hún hafi valdið þessari skjálftavirkni sé erfitt að segja til um.

„Ekki nema með mjög ítarlegri greiningu á gögnunum, það þarf að rýna þau betur en þetta.“

Ekki stærst, kannski tíunda stærst

Hann segist ekki sammála því sem fram hefur komið í fjölmiðlum og verið sett fram af kollegum hans um Bárðarbungu.

„Að Bárðarbunga sé einhver svakalega öflug eldstöð. Hún er langt frá því að vera stærsta megineldstöðin á Íslandi, hún nær því kannski að vera tíunda stærsta eða eitthvað þess háttar. Hún er nefnilega frekar lítil.“

Ekki er vitað hvort megineldstöðin Bárðarbunga hefur gosið síðan jökla leysti. Þó það sé líklegt hefur ekkert verið staðfest með rannsóknum.

„Það hefur enginn lagt í þá vinnu. Þetta er mjög mikilvægt – við getum ekki bara gefið okkur það, án nægilegra upplýsinga, að Bárðarbunga sé eitthvað svakalega öflugt eldfjall,“ segir Þorvaldur.

„Við verðum að sýna fram á það með bæði gögnum og réttum athugunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert