Á fundi velferðarnefndar Alþingis í fyrradag var samþykkt að ósk Njáls Trausta Friðbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að stofna til frumkvæðismáls af hálfu nefndarinnar vegna lokunar austur/vestur flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.
Í framhaldinu komu fulltrúar frá heilbrigðisráðuneytinu, Miðstöð sjúkraflugs, Norlandair, Isavia innanlands, Reykjavíkurborg og Samgöngustofu fyrir nefndina.
Austur-vestur-flugbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað á miðnætti síðastliðinn föstudag samkvæmt tilskipun Samgöngustofu til Isavia. Ákvörðunin var tekin þar sem hæð trjáa í Öskjuhlíð ógnar flugöryggi til og frá höfuðborginni.
Vinna er hafin við trjáfellingar í Öskjuhlíð til að hægt verði að opna flugbrautina að nýju en lokunin hefur alvarleg áhrif á sjúkraflug.