Ísland þarf að efla varnarviðbúnað sinn eins og önnur bandalagsríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) að mati utanríkisráðherra.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins hittust á ráðherrafundi í Brussel í dag þar sem þeir ræddu aukinn varnarviðbúnað og fælingarmátt bandalagsins og stuðning bandalagsríkja við Úkraínu.
„Það er ljóst að öll bandalagsríki eru að efla sinn varnarviðbúnað og getu. Það þurfum við líka að gera í þéttu samstarfi við okkar nánustu bandamenn. Þá kom það skýrt fram á fundinum að krafan á Evrópuríkin um aukin framlög og fjárfestingar mun aðeins aukast,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra sem sótti fundinn.
Haft er eftir henni að það sé brýnt að styðja við Úkraínu til að styrkja stöðu þeirra og tryggja að Evrópa og Úkraína taki þátt í öllum viðræðum um framtíðarskipan mála.
„Á fundinum var tilkynnt um áframhaldandi stuðning Íslands við varnir Úkraínu en lagðar verða 400 milljónir í sjóð fyrir sprengjuleit og eyðingu, sem Ísland og Litháen leiða, og aðrar 400 milljónir í verkefni sem Danir leiða til stuðnings varnartengdum iðnaði í Úkraínu,“ segir í tilkynningunni.
Á fundinum var farið yfir áætlanir og aðgerðir sem snúa að því að efla fælingar- og varnargetu NATO, meðal annars aukin framlög til varnarmála og eflingu herstjórnarkerfisins.
Þorgerður fundaði með Christopher G. Cavoli, yfirhershöfðingja NATO, sem jafnframt er yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Evrópu.
Þau ræddu varnarviðbúnað bandalagsins, framlag Íslands til sameiginlegra varna og þróun mála á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum.