Sjálfstæðisflokkurinn missir þingflokksherbergið

Þingflokksherbergi sjálfstæðismanna, sem þeir hafa haldið í 84 ár, er …
Þingflokksherbergi sjálfstæðismanna, sem þeir hafa haldið í 84 ár, er málað bláum lit og þar hanga málverk af formönnum og þingforsetum. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfstæðisflokkurinn kveður nú þingflokksherbergið sem hann hefur verið í síðan 1941. Það gerist í kjölfar þess að forseti Alþingis knúði fram breytingu á núgildandi reglum er varða úthlutun þingflokksherbergja í dag.

„Það hefur því miður sýnt sig að Samfylkingunni er í hinum ýmsu málum ekki mjög umhugað um reglur og hefðir á okkar háa Alþingi. Reglur um þingflokksherbergi voru skýrar enda úrskurðaði skrifstofustjóri Alþingis að samkvæmt þeim ætti Sjálfstæðisflokkurinn að halda herbergi því sem hann hefur verið í síðan 1941,“ er haft eftir Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, úr fréttatilkynningu.

Þingflokkur sjálfstæðisflokksins kveður þingflokksherbergið.
Þingflokkur sjálfstæðisflokksins kveður þingflokksherbergið. Ljósmynd/Aðsend

„Óþarfa rask og deilur“

Telur flokkurinn greinilegt að breyttar reglur muni ekki standast tímans tönn né breytingar á ríkisstjórn annað en þær reglur sem í gildi voru.

Höfðu þær reglur að markmiði að koma í veg fyrir „óþarfa rask og deilur“ innan þingsins. Nýjar reglur hafi engin slík sjónarmið að leiðarljósi.

„Þá bregst Samfylkingin við í krafti nýfengins meirihlutavalds síns og breytir með einu óvönduðu pennastriki reglunum til þess eins að taka herbergi Sjálfstæðisflokksins. Mér þykir þetta í raun með eindæmum lítilmannlegt en Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að eyða meiri tíma í þetta mál og þau þurfa að eiga við sig að hafa ákveðið að forgangsraða kröftum sínum og athygli á fyrstu dögum þingsins í að hafa af okkur þetta herbergi,“ segir Hildur.

„Sjálfstæðisflokkurinn getur að sjálfsögðu unnið í öllum rýmum hússins að því aðhaldi sem nauðsynlegt er gagnvart nýrri ríkisstjórn. Við bara kveðjum því herbergið okkar í bili og óskum þeim velfarnaðar þar sem hefur verið góður andi í 84 ár og við vonum að bláu veggirnir verði þeim gæfuríkt leiðarljós í sínum störfum.“

Segir einnig að flokkurinn óski Samfylkingunni velfarnaðar í sögufrægu rýminu.

Þá hafi innflutningsgjöf verið skilin eftir í herberginu í tilefni tímamótanna.

Þingflokkur sjálfstæðisflokksins skildi eftir innflutningsgjöf í þingflokksherberginu í tilefni tímamótanna.
Þingflokkur sjálfstæðisflokksins skildi eftir innflutningsgjöf í þingflokksherberginu í tilefni tímamótanna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert