Skipstjórinn á Júlíusi Geirmundssyni sýknaður

Mikið hefur verið fjallað um þessa afdrifaríku veiðiferð.
Mikið hefur verið fjallað um þessa afdrifaríku veiðiferð. Ljósmynd/Sigurður Bergþórsson

Landsréttur hefur sýknað skip­stjóra frysti­tog­ar­ans Júlí­usar Geir­munds­sonar af miskabótakröfum en hann hafði áður verið sakfelldur af Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið varðar veiðiferð í kórónuveirufaraldrinum þar sem fjöldi skipverja smitaðist af Covid-19.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en í veiðiferðinni smituðust 22 af 25 skipverjum af Covid-19, í september og október árið 2020.

Héraðsdómur sakfelldi skipstjórann fyr­ir að brjóta gegn sjó­manna­lög­um er hann hætti ekki veiðiferð í kjöl­far veik­inda um borð í skip­inu.

Niðurstaða héraðsdóms var byggð á því að Sveinn átti að hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi.

Sýndi ekki af sér stórfellt gáleysi

Skip­verj­inn sem kærði skipstjórann veikt­ist á fimmta degi veiðiferðar­inn­ar en ekki var haldið til hafn­ar. Áhöfn­in var svo skimuð fyr­ir Covid-19 á 20. degi veiðiferðar í stuttu stoppi til að taka olíu á skipið.

Að svo búnu lagði skipið úr höfn á ný, en sneri til baka degi síðar eft­ir að niður­stöður skimana lágu fyr­ir.

Skipverjinn höfðaði mál gegn Sveini og krafði hann um miskabætur vegna heilsutjóns sem hann rakti til framkomu skipstjórans og reyndar líka framkvæmdastjóra útgerðarinnar og útgerðarstjórans.

Landsréttur segir hins vegar að ekki sé hægt að draga þá ályktun að Sveinn hafi með sínum viðbrögðum við veikindum skipverja sýnt af sér stórfellt gáleysi.

Hann hafi til dæmis ekki þvingað neinn veikan skipverja til þess að vinna, verið í samskiptum við umdæmislækni sóttvarna og þegar niðurstöður skimunar lágu fyrir þá hélt hann til hafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert