„Það er fjarstæðukennt að segja þetta“

„Við erum búin að vera með börn í skólanum í …
„Við erum búin að vera með börn í skólanum í sjö ár og öryggi þeirra hefur aldrei verið tryggt,“ segir Hermann. mbl.is/Karítas

Hermann Austmar, faðir stúlku í sjöunda bekk í Breiðholtsskóla, furðar sig á því að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar (SFS) kannist ekki við ofbeldis- og eineltisvanda í skólanum til margra ára.

Vill hann að SFS biðjist afsökunar á þeirri fullyrðingu og dragi hana til baka.

Hann hefur lengi barist fyrir því að skólastjórnendur og borgin taki á vandamáli skólans með fullnægjandi hætti og hefur margoft reynt að vekja athygli SFS á alvarleika þess.

„Það er fjarstæðukennt að segja þetta,“ segir Hermann og minnist þess að hafa sent fyrsta póstinn á SFS út af ofbeldi í skólanum árið 2019, þegar börnin voru í 2. bekk.

Síðan þá hefur hann hringt ótal símtöl, sent fjölda tölvupósta og setið fundi með skólastjóra Breiðholtsskóla og fulltrúa SFS þar sem vandamálið hefur verið til umræðu.

„Við erum búin að vera með börn í skólanum í sjö ár og öryggi þeirra hefur aldrei verið tryggt,“ segir Hermann sem hefur nú lagt fram kæru á hendur Reykjavíkurborg fyrir brot á lögum um grunnskóla.

Tók dóttur sína úr Breiðholtsskóla

Morgunblaðið greindi á mánudag frá umfangsmiklum ofbeldis- og eineltisvanda í Breiðholtsskóla meðal nemenda í 7. bekk. Ofbeldið er andlegt, líkamlegt og kynferðislegt. Dæmi eru um að börn þori ekki í skólann. 

Foreldrar sem Morgunblaðið ræddi við hafa síðustu ár reynt að vekja athygli yfirvalda á vandanum í von um að gripið verði almennilega í taumana. Þar má m.a. nefna barnavernd, umboðsmann barna, skóla- og frístundasvið borgarinnar og mennta- og barnamálaráðuneytið.

Eitt foreldrið hefur tekið dóttur sína úr skólanum. Mörg segjast hafa íhugað þann möguleika. Hermann segist hafa reynt að flytja dóttur sína um skóla í nokkur ár en hann hafi fengið þau svör að ekki væru laus pláss í þeim skólum sem hann óskaði eftir flutning í.

Aðstoðarskólastjóri Breiðholtsskóla viðurkenndi í samtali við Morgunblaðið að börnin hefðu þurft að glíma við andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu samnemenda sinna.

Hann taldi þó að málið væri komið í góðan farveg. Búið væri að grípa til ýmissa ráðstafana.

Ekki er vitað hvað átt er við

Morgunblaðið og mbl.is sendu fyrirspurn á SFS í tengslum við umfjöllunina. Í svari sviðsins kom fram að SFS kannaðist ekki við að vandamálið hefði verið viðvarandi í mörg ár.

Ekki er vitað hvað átt er við með þeirri fullyrðingu sem þessi fyrirspurn felur í sér um eineltis- og ofbeldisvanda til margra ára,“ segir í svarinu.

„Í þessu tilfelli sem er vísað til hefur margt verið gert til að greiða úr vanda í nemendahópi og til að tryggja vinnufrið en eins og gefur að skilja er oft um flókin mál að ræða,“ sagði þar jafnframt.

Hann segist enn fremur hafa verið í miklum samskiptum við borgina undanfarna mánuði og ár vegna Breiðholtsskóla, m.a. hafi hann rætt við kjörna borgarfulltrúa og fulltrúa SFS.

Í samskiptum sínum við borgina, hvort sem þau hafi farið fram á fundum eða í tölvupóstum, hefur hann lýst ástandinu í árganginum síðustu mánuði og ár.

„Það er búið að lofa alls konar en það stenst aldrei,“ segir Hermann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert