Þetta eru kröfur kennara: Ætla ekki að gefa eftir

Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, segir kennara vilja stíga varlega …
Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, segir kennara vilja stíga varlega til jarðar þegar kemur að því að gera langtíma kjarasamning. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Kennarar ætla ekki að gefa eftir kröfu um forsenduákvæði, sem felur í sér uppsögn á kjarasamningi, hugnist þeim ekki staðan á eða útkoman úr þeirri virðismatsvegferð sem lagt er upp með í innanhústillögu ríkissáttasemjara.

Þá gera þeir einnig kröfu um meiri innspýtingu en 20 prósent launahækkanir sem eru nú í boði á samningstímanum.

Atkvæðagreiðslur standa nú yfir um frekari verkfallsaðgerðir í leik- og grunnskólum, sem koma til framkvæmda í byrjun mars, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.

Síðast var fundað í kjaradeilu leik-, grunn- og tónlistarskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) á mánudag og þótti þá ríkissáttasemjara ekki tilefni til að boða til nýs fundar. Samtöl hafa þó átt sér stað síðustu daga á óformlegri nótum.  

Í gær og í dag var hins vegar fundað í kjaradeilu Félags framhaldsskólakennara og ríkisins en þar er verið að ræða um ákveðin atriði sem varða eingöngu framhaldsskólakennara, en gætu hugsanlega liðkað fyrir kjarasamningi Kennarasambands Íslands og SÍS. Meginkröfur allra aðildarfélaga Kennarasambandsins eru þó þær sömu.

Telja betra að taka styttri skref 

„Við teljum það algjörlega ljóst að okkar fólk, sem hefur verið að bíða allan þennan tíma, að nýr samningur sem myndi ekki innihalda forsenduákvæði, þá er aftur verið að biðja okkur um að skrifa upp á loforð til lengri tíma, sem við erum ekki tilbúin að treysta skilyrðislaust,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), í samtali við mbl.is. 

Með forsenduákvæði er átt við að samningurinn sé uppsegjanlegur á samningstímabilinu, haldi ákveðnar forsendur ekki.

„Við erum sammála um að samningur sem yrði til 2028, án forsenduákvæða, þyrfti að innibera miklu meiri tryggingar heldur en eru á borðinu. Þá þyrftu bara að vera fleiri prósentur í þeim poka. Það er okkar mat að betri leið sé að taka styttra skref, vinna almennilega í þessum þremur ólíku þáttum sem eru þá virðismatsvegferð, fá útlistun á öðrum kjörum á milli almenna markaðarins og kennara og að skoða mismunandi kjör á milli samninga okkar aðildarfélaga.” 

Hann segir þó ekki verið að tala um að gera stuttan samning, heldur gæti samningur orðið til 2028, líkt á almennum markaði. 

„En forsenduákvæðið verður að vera þannig að ef við erum á erfiðum stað í virðismatsvegferðinni eða höfum ekki náð samhljómi um hina þættina þá verðum við að geta sagt: þá verðum við að finna leið sem hentar fyrir félagsfólk KÍ.“ 

Ekki frekari hækkanir í seinni tillögunni 

Þegar verkföllum var frestað með innanhústillögu í lok nóvember þá var, að sögn Magnúsar, strax talað um ákveðnar launahækkanir, sem SÍS hefur gefið út að séu um 20 prósent. Ekki hafi verið frekari hækkanir á borðinu í innanhústillögunni í lok janúar. Í henni er hins vegar forsenduákvæði, en kennurum finnst það vera of seint á samningstímanum.  

„Við vorum strax frekar skýr með að við teldum að seinni innanhústillagan myndi ekki nægja til að leysa verkefnið. Það sem gerist í millitíðinni er að launagreiðendur samþykkja hana. Það er þessi helgi þar sem við sögðum að við þyrftum frekari tryggingu fyrir þessu verkefni, sem heitir virðismatsvegferð,“ segir Magnús og vísar til fyrstu helgarinnar í febrúar, þegar samninganefndir kennara, ríkis og sveitarfélaga funduðu stíft og reyndu til þrautar að landa samningi áður en verkföll hæfust á mánudeginum.  

Fram hefur komið að kennarar töldu sig vera að því komna að landa samningi á þeim tíma og ítrekar Magnús að það hafi verið tilfinningin. Samtalið hafi verið það langt komið, allavega við sveitarfélögin, þó það hafi verið meira eftir varðandi ríki og framhaldsskólakennara. Á lokametrunum hafi aðilar hins vegar ekki náð saman um áðurnefnd atriði. 

„Frá þeim tíma hefur öll umræða farið í þetta verkefni að finna leið til að loka þessari innanhústillögu þannig að allir séu sáttir. Það hefur verið fram og til baka í því.“ 

„Tilbúin að fara af heilindum í það verkefni“ 

Líkt og fram hefur komið hefur kennaraforystan átt fundi með stjórnvöldum og hefur forsætisráðherra sagt að lagður hafi verið fram almennur aðgerðapakki í þeim tilgangi að reyna að liðka fyrir samningum. 

Magnús vísar til þess að bæði forsætisráðherra og formaður SÍS hafi sagt að kennarar ættu inni leiðréttingu á sínum launum, og að virðismatsvegverð væri eitthvað sem stjórnvöld hafi viljað leggja til í þeim efnum. 

Kennarar voru fyrst um sinn ekki hrifnir af því að fara virðismatsleiðina sem ríkissáttasemjari hefur einnig talað fyrir. En nú er staðan þannig að þeir eru til í að fara þá leið, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. 

„Við erum tilbúin að fara af heilindum í það verkefni,“ segir Magnús. 

„Það sem hefur verið ásteytingarsteinn síðan 2016 er hvaða hugmyndafræði menn vilja nota til að finna launamun milli markaða. Það kom út skýrsla 2018 þar sem talað er um tölur hagstofunnar og starfaflokkunarkerfi sem ákveðið viðmið. Við höfum verið að benda á það,“ útskýrir hann. 

„Okkur fannst í lok janúar, þegar við vorum búin að vera samtali í langan tíma og finnum þessa jákvæðni frá stjórnvöldum um að uppfylla ákvæði samkomulagsins frá 2016, á forsendum virðismatsvegferðar, þá töldum við okkur þurfa að skoða þá leið af alvöru. Hvort að í henni væri að finna lausn verkefnisins eða a.m.k. marktæk skref í þá átt.“ 

Virðismatskerfi nái ekki nógu vel yfir kennarastarfið 

Magnús segir virðismatskerfi almennt ekki hafa náð nógu vel yfir störf kennara á heimsvísu. 

„Það hefur verið ákveðið vandamál í ljósi eðlis starfsins, sérstaklega þegar kemur að ábyrgðarþáttum og umbúnaði starfa kennara, skólastjórnenda og námsráðgjafa. Þess utan er það líka ennþá þannig að virðismatskerfi hafa verið mjög karllæg. Virðismatskerfin hafa talið ábyrgð á fjármunum og líkamlega vinnu skora hærra en störf sem falla að því að vinna með börnum og störf sem konur hafa verið að vinna,” útskýrir hann. 

„Við höfum sagt að við séum til í að fara inn í virðismatskerfi byggt á þeirri hugmyndafræði sem hefur verið lögð fyrir okkur. Að það verði einblínt á kennarastarfið sem miðjuna og reynt að nýta þau kerfi sem eru lengst komin. Við erum sátt við að sú vinna verði unnin í samvinnu launafólks og launagreiðenda, þá sjáum við hvort sú vinna mun fanga þennan mun sem við sjáum.“ 

Í ljósi þess að áður hafi verið reynt að fara í starfsmat, sem ekki hafi reynst vel, og að ákveðnir óvissuþættir séu í virðismatsleiðinni, þá vilji kennarar stíga varlega til jarðar þegar kemur að því að gera kjarasamning til lengri tíma. 

Þurfi að samræma vinnuumhverfið 

Magnús segir mikilvægt að geta boðið kennurum upp á samkeppnishæf laun og snúa þannig við neikvæðri þróun þegar kemur að nýliðun. Kennurum á aldrinum 40 ára og yngri hafi verið að fækka, sérstaklega í framhaldsskólum, og það sé áhyggjuefni. 

„Þetta eru bara skýrar birtingarmyndir að við erum ekki að ná að standa okkur í samkeppni við önnur störf hjá unga fólkinu og því verðum við að breyta.“ 

Hann segir kennara líka átta sig á að það skipti máli að samræma ýmislegt í vinnuumhverfinu. 

„Það hefur mikið verið talað um önnur kjör og við erum alveg tilbúin að skoða þau. Bæði þau kjör sem við erum með umfram almenna markaðinn en það eru líka kjör á almennum markaði sem eru umfram okkar, teljum við. Svo líka kjör sem eru ólík á milli kennarastéttanna og á opinberum markaði.“ 

Morgunblaðið/Hari

Gera ráð fyrir frekari aðkomu stjórnvalda 

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur sagt að sveitarfélögin hafi teygt sig eins langt og þau geti hvað varðar launahækkanir til kennara. Jafnframt að sveitarfélögunum hugnist ekki hafa forsenduákvæði jafn snemma á samningstímanum og kennarar gera kröfu um. Þá hefur Inga sagt skorta samningsvilja af hálfu kennara. 

Aðspurður hvernig það eigi að vera hægt að landa samningi þegar það liggur fyrir af hálfu beggja aðila að þeir ætli ekki að gefa eftir, segir Magnús: 

„Mér finnst í allri umræðunni að það vanti upp á traust hjá öllum. Við getum sagt um hvort annað að við séum ekki með samningsvilja, en við erum búin að sitja í fimm mánuði og ræða um hlutina. Það er búið að kasta allskonar hlutum á milli. Ríkissáttasemjari hefur lagt mjög mikla vinnu í að finna einhvers konar fleti á milli aðila til að komast áfram.“ 

Samninganefndirnar hafi komist áfram með ýmis mál. Til dæmis sé umræðan um virðismatsvegferðina á allt öðrum stað en í haust og þá hafi náðst árangur í umræðunni um að skoða önnur kjör. 

„Í rauninni höfum við komist mjög langt og við erum sammála um margt. Það er bara síðasta brúin sem við þurfum að komast yfir. Það er viðbúið að við munum þurfa að fá samtal við stjórnvöld til að komast þar yfir. Við höfum reglulega séð það í gegnum tíðina að aðkoma stjórnvalda sé þörf til að einmitt klára síðustu atriðin. Til að samningar náist hjá ólíkum aðilum, t.d. í þeim samningum sem voru undirritaðir á síðasta ári.“ 

Ýmsar útfærslur verkfalla til skoðunar

Síðastliðinn sunnudag dæmdi Félagsdómur verkföll í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum ólögmæt, á grundvelli þess að verkföll skuli ná til allra starfsmanna stéttarfélags hjá sama vinnuveitanda. Í leik- og grunnskólum er hvert og eitt sveitarfélag vinnuveitandi en í framhalds- og tónlistarskólum er hver og einn skóli vinnuveitandi. Verkföll í leik- og grunnskólum þurfa því að ná til allra kennara sveitarfélagsins á sama tíma. 

Kennarasambandið þarf því að breyta um aðferðafræði í verkfallsaðgerðum en undirbúningur frekari aðgerða hófst strax á mánudaginn. Atkvæðagreiðsla um verkföll stendur nú yfir. Magnús gerir ráð fyrir að aðgerðirnar verði kynntar í lok vikunnar eða snemma í þeirri næstu. 

Hann segir ýmsar útfærslur aðgerða vera til skoðunar. Til að mynda að allir kennarar fari í verkföll einn dag í viku, að farið sé í verkföll hluta úr degi og fleiri útfærslur í þeim dúr. Hvert og eitt aðildarfélag tekur ákvörðun um hvernig útfærslan verður hjá hópi þeirra félagsmanna. 

Þessar aðgerðir leik- og grunnskólakennara hefjast í byrjun mars, náist samningar ekki fyrir þann tíma. 

Nú þegar hafa verið boðuð verkföll í fimm framhaldsskólum og einum tónlistarskóla, sem hefjast 21. febrúar hafi samningar ekki náðst. 

Magnús gerir sér þó vonir um að samningar náist áður en kemur til frekari verkfallsaðgerða, þó auðvitað sé erfitt að segja til um hvenær það gerist. 

„Þetta er ekki klárt fyrr en það er klárt. Reglulega síðustu tvær vikur höfum við talið okkur komin mjög nálægt samningum, en svo er stigið til baka og þá byrjar maður aftur. Það er svo erfitt að segja að við séum bjartsýn eða svartsýn. Mér finnst við hafa náð árangri í mjög mörgu í samtalinu, en það eru auðvitað ákveðnir þættir sem standa ennþá út af, sem eru stórir þættir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert