Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, hefur hækkað veiðigjöld á hreindýr um 20% fyrir tarfa og 19% fyrir kýr.
Auglýsing um nýja gjaldskrá er birt í Stjórnartíðindum í dag og er hún undirrituð af ráðherra. Vísir greindi fyrst frá breytingunni.
Kostar nú 231.600 að fella tarf og 132 þúsund að fella kú, en til viðbótar bætist svo kostnaður meðal annars við skotpróf, leiðsögumann o.s.frv.
Í fyrra kostaði leyfi fyrir tarf 193 þúsund krónur og fyrir kýr 110 þúsund.
Þessi hækkun er umtalsvert umfram almenna verðlagsbreytingu, en verðbólga mælist nú 4,6%.