Byrlunarmálið svokallaða hófst í maí 2021 þegar Páll Steingrímsson skipstjóri tilkynnti lögregluyfirvöldum að honum hefði verið byrlað ólyfjan og að sú aðför hafi nærri kostað hann lífið.
Takmarkað hefur verið fjallað um málið á síðum Morgunblaðsins frá því að það kom fyrst upp enda lítið um opinber gögn til að styðjast við. Í kjölfar viðtals við Pál, sem birt var í Spursmálum á mbl.is þann 7. febrúar síðastliðinn, hefur blaðið komist yfir mikið magn upplýsinga sem varpa skýrara ljósi en áður á umrædda atburði.
Verður máli þessu gerð skil í greinaflokki í blaðinu á komandi dögum. Hér að neðan má sjá fyrstu greinina sem birt var í Morgunblaðinu nú í morgun.
Sú næsta birtist í blaðinu næstkomandi laugardag.
Páll Steingrímsson kom í land næstsíðasta dag aprílmánaðar 2021 eftir nokkuð stíft úthald. Þótt hugur hans hafi sennilega að einhverju leyti hverfst um aflabrögðin þá stóð hann í ströngu. Yfirvofandi var skilnaður hans við þáverandi eiginkonu en samband þeirra hafði verið stormasamt, meðal annars vegna mikilla andlegra veikinda hennar. Höfðu þau auðnubrigði litað samskipti þeirra um nokkurt skeið.
Þegar í land var komið fékk Páll sér herbergi á Hótel Óðinsvéum við Þórsgötu í Reykjavík. Þangað vitjaði eiginkona hans fráfarandi hans og hefur hann lýst því í skýrslutökum og viðtölum að þar hafi hún boðið honum vínglas. Vildi hann ekki þiggja það og erfið samskipti ollu því að hann ákvað að halda norður til Akureyrar en þar hefur Páll búið síðustu áratugi.
Degi síðar eru Páll og kona hans bæði komin norður. Býður hún honum bjórglas sem hann hefur lýst opinberlega að hann hafi þegið með semingi. Þetta er að kvöldi 2. maí. Hafi honum fundist bragðið af honum undarlega beiskt. Skutlaði hann drykknum þó í sig.
Um það bil tveimur tímum síðar hófst atburðarás þar sem minnstu munaði að Páll léti lífið. Er málið oftast nefnt byrlunarmálið í almennu tali. Hefur það ratað um völundarhús íslenska réttarvörslukerfisins án þess að botn hafi fengist í það hvað olli bráðaveikindum Páls, né heldur hverjir stóðu að baki aðgerð sem miðaði að því að komast yfir persónuleg gögn skipstjórans, meðan hann barðist fyrir lífi sínu á gjörgæsludeild Landspítalans.
Eins og áður greinir frá lagðist Páll til svefns að kvöldi sunnudagsins 2. maí og átti sér einskis ills von. Um tveimur tímum síðar vaknar hann mikið veikur og bregður á það ráð að koma sér yfir að húsi nágranna sinna, hjóna sem hann þekkti vel. Féll hann í fang þeirra og bað um að kallað yrði eftir sjúkrabíl.
Í endurriti af samtali fólksins við Neyðarlínuna þessa nótt má ljóst vera að ástand Páls var mjög alvarlegt og versnaði hratt. „Við verðum að fá sjúkrabíl strax,“ er kallað þegar starfsmaður Neyðarlínunnar svarar. Af samtalinu má ráða að Páll hafi verið mjög máttfarinn og missti hann nokkrum sinnum meðvitund þótt hann hafi að einhverju leyti getað tjáð sig. Þegar tilkynnt er að sjúkrabíll sé á leiðinni höfðu þau misst samband við hann.
Ekki liggur fyrir af hverju Páll leitaði ekki til eiginkonu sinnar þegar veikindanna varð vart heldur hélt út úr húsi í leit að bjargráðum. Í skýrslu hjá lögreglu lýsti nágrannakona hans því hins vegar að eftir að Páll var fluttur á brott hafi hún séð að útidyrahurð á heimili hans var opin. Gekk hún að húsinu, bankaði létt á dyrnar og gekk svo inn. Vakti hún þar dóttur Páls en kona hans var hvergi sjáanleg. Hún hafi „[…] svo nokkru seinna komið yfir til þeirra [nágrannahjónanna] og virkað róleg og yfirveguð, hún hafi þakkað fyrir upplýsingarnar og farið aftur heim til sín“.
Páll var fluttur í skyndi á Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) en í skýrslu sjúkraflutningamanna kemur fram að Páll hafi náð meðvitund og þar lýst því yfir að hann hafi talið að hann hefði fengið matareitrun af hamborgara sem hann hafði neytt um kvöldið en að það gæti ekki staðist því fjölskyldan hefði öll borðað sama matinn. Þá lýsti hann því yfir á þessum tímapunkti að hann teldi að fyrir sér hefði verið eitrað. Í samskiptum við sjúkraflutningamenn sagðist hann ekki hafa tekið nein lyf inn í aðdraganda veikindanna, en virðist þó á einum tímapunkti hafa dregið í land með það. „Játar síðar að hann hafi tekið inn slævandi lyf, ekki tekst að fá fram hvaða lyf,“ segir í skýrslunni. Ekki er hægt að ráða af gögnum máls hvort þar hafi Páll verið að vísa til inntöku af fúsum og frjálsum vilja, eða þeirrar fullyrðingar sem frá honum stafaði á sama tíma um að hann teldi að sér hefði verið byrluð ólyfjan.
Á SAk var gripið til lífsbjargandi meðferðar og hefur Páll lýst því opinberlega að hann hafi nokkrum sinnum lent í hjartastoppi, því fyrsta snemma morguns 3. maí. Þá virtist hann þjást af alvarlegri nýrnabilun sem afleiðingu af eitrun. Var hann ræstur að nýju með rafstuði. Einhvern tíma í þessu ati afhenti fráfarandi eiginkona Páls heilbrigðisstarfsfólki poka með lyfjum af heimilinu og innihélt hann meðal annars töflur af svefnlyfinu Imovane og sterku verkjalyfi sem nefnist Tradolan.
Á SAk voru framkvæmdar hefðbundnar rannsóknir og kom í ljós að etanól var ekki mælanlegt í blóði og skimun fyrir algengustu fíkniefnum var einnig neikvæð.
Ekki voru gerðar sérstakar mælingar á því hvort innihaldsefni Imovane og Tradolans væru í blóði Páls á þessum tímapunkti. Hins vegar er ljóst af skýrslu frá SAk að Páli var veitt móteitrið naloxon og síðar, eða um morguninn 3. maí, móteitrið flumazenil. Fyrrnefnda efnið er ráðlagt við ofskömmtun Tramadóls og hið síðarnefnda við ofskömmtun svokallaðs zópíklóns, sem er virka innihaldsefnið í Imovane. Zópíklón hvarfast mjög hratt úr mannslíkamanum og því hefði skipt sköpum fyrir rannsókn á veikindum Páls að fá úr því skorið hvort efnið hefði fundist í miklum skömmtum í líkama hans þegar veikindanna varð vart. Ekki hefur fengist svar við því af hverju lögregla lét ekki gera víðtækari eiturefnarannsókn á Páli í ljósi þess sem hann fullyrti í samtali við sjúkraflutningamennina, nóttina sem hann veiktist.
Sú staðreynd að honum var gefið flumazenil fyrrnefndan morgun gefur hins vegar sterklega til kynna að læknar hafi talið að um eitrun af völdum zópíklóns hafi verið að ræða. Sérfræðingur í bráðalækningum sem Morgunblaðið hefur rætt við segir það raunar staðfestingu á að alvarlegur grunur um slíka eitrun sé að ræða. Mjög varasamt geti verið að gefa flumazenil nema í slíkum tilvikum þar sem lyfið getið haft alvarlegar aukaverkanir, meðal annars lækkað svokallaðan krampastuðul.
Páll upplýsti í fyrrnefndu viðtali í Spursmálum að hann hefði útvegað fráfarandi eiginkonu sinni skammta af svefnlyfinu Imovane í apríl 2021, örfáum dögum áður en veikindi hans brustu á. Hún hefði beðið hann um það, þar sem hún hefði átt erfitt með svefn. Fullyrðir Páll að hún hafi leyst lyfið út.
Síðar kallaði lögreglan á Norðurlandi eystra eftir upplýsingum frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands (RLE) um þessi efni og óskaði eftir mati stofnunarinnar á fyrirliggjandi gögnum úr heilbrigðiskerfinu í tengslum við þá læknismeðferð sem Páll hlaut.
Þar er bent á að Imovane geti haft slævandi áhrif á miðtaugakerfi, allt frá syfju til dás. Segir að ofskömmtun lyfsins eigi ekki að vera lífshættuleg „nema samtímis hafi verið notuð önnur lyf sem bæla miðtaugakerfið, þ.m.t. áfengi“. Þá segir að bælandi áhrif á miðtaugakerfi geti aukist við samtímis notkun ýmissa lyfja, meðal annars sterkra verkjalyfja.
Páll var í lífshættu eftir að á SAk var komið og gripu læknar til ýmissa aðgerða til þess að halda honum á lífi. Það virtist þó ekki duga til og að lokum var ákveðið að flytja hann til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Það gerðist 4. maí. Var Páli haldið sofandi í öndunarvél og var hann að lokum vakinn þann 6. maí.
Fljótlega eftir að hann komst til meðvitundar fékk hann farsíma sinn í hendur. Þá grunaði hann ekki hversu víðförult tækið hafði gerst meðan hann lá rænulaus á sjúkrahúsinu, né heldur hversu margir höfðu farið höndum um það. Sá grunur átti þó eftir að vakna fljótt og má segja að það sé upphaf hins magnþrungna byrlunarmáls.
Páll var útskrifaður af sjúkrahúsi þann 11. maí.
Þremur dögum síðar, og tæpum tveimur vikum eftir að líkami hans tók skyndilega að gefa sig, gekk Páll inn á lögreglustöðina á Akureyri og óskaði eftir samtali við lögreglumann. Sagan sem á eftir fylgdi var lyginni líkust.