Á alvarlegum stað vegna langvarandi fjárskorts

Vegamálastjóri segir að gera þurfi Vegagerðinni kleift að sinna meira …
Vegamálastjóri segir að gera þurfi Vegagerðinni kleift að sinna meira viðhaldi á samgöngukerfinu. Samsett mynd mbl.is/Kristinn Magnússon Ljósmynd/Tómas Freyr Kristjánsson

„Við erum alvarlega undirfjármögnuð í viðhaldi og búin að vera það í langan tíma þannig við erum komin með talsvert marga vegi sem eru bara á brotpunkti,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri.

Ástand vega hefur verið í umræðunni að undanförnu. Bikblæðingar hafa t.a.m. verið að myndast á vegum á Vesturlandi og þá hefur bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýst yfir þungum áhyggjum vegna hættulegs ástands þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi.

Ekki óvænt en alltaf skelfilegt

Um bikblæðingar segir Bergþóra lakasta ástandið vera á vegum Vesturlands og teygja sig í norður.

„Það eru vetrarblæðingar. Við vitum að það er mikil hætta á því að þegar það er búið að vera mikið frost þá kemur mikil þíða og það er það sem gerist núna,“ segir Bergþóra og bætir við:

„Það eru auðvitað lökustu vegirnir okkar sem að fara verst. Þeir sem eru með lélegt burðarlag og þar er mesta hættan. Það er ekki óvænt en auðvitað er þetta alltaf skelfilegt þegar það gerist.“

Aðspurð segir hún að um óvenju slæman vetur sé að ræða. „Þetta er mjög slæmt núna, já. Sérstaklega af því að þetta er mjög víða. Það eru langar leiðir undir og eðli málsins samkvæmt heftir þetta för verulega.“

„Þarf að gera okkur kleift að sinna meira viðhaldi“

Í samtali við mbl.is fyrr í dag lýsti Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, yfir þungum áhyggjum vegna ástands á ýmsum vegum á Vesturlandi.

Má þar finna holótta vegi með brotna vegkanta svo eitthvað sé nefnt.

Kallaði bæjarstjórinn eftir að aukafjárveitingar yrðu veittar svo að hægt væri að fara í neyðarviðgerðir á vegunum.

Bergþóra segir talsvert marga vegi vera á brotpunkti vegna undirfjármögnunar. Segir hún það sjást t.a.m. í dölunum þar sem finna má gamla vegi sem, að sögn Bergþóru, voru byggðir fyrir allt annað en það álag sem sé á þeim í dag.

„Það er bara ekki hægt að taka nógu sterkt til orða. Það þarf að gera okkur kleift að sinna meira viðhaldi á samgöngukerfinu.“

Orsakast af langvarandi fjárskorti

Segist hún eiga von á að fjármálaáætlun verði kynnt fyrir sumarið sem muni gefa vísbendingar um hvað ríkisstjórnin ætlar sér og mun þar myndast rammi fyrir samgönguáætlun.

„Við erum komin á alvarlegan stað í viðhaldsmálum sem orsakast af langvarandi fjárskorti til verkefnisins á sama tíma og umferð hefur aukist gífurlega,“ segir Bergþóra.

Hún bætir við að notkun á samgöngukerfinu hafi einnig breyst í meginatriðum, bæði með tilkomu aukinnar ferðaþjónustu, en einnig vegna mikilla búsetubreytinga. „Við lifum öðruvísi og þurfum meira.“

Nefnir vegamálastjórinn einnig að breytingar hafi orðið í atvinnuháttum sem kalli á þungaflutninga sem að gamlir vegir voru aldrei hugsaðir fyrir. Umferðaraukningin undanfarinn áratug er því nú mjög víða á bilinu 70-100%.

„Þetta samgöngukerfi er bara að sinna allt öðrum verkefnum heldur en það var að gera fyrir ekki svo löngum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert