Brynhildur lætur af störfum sem leikhússtjóri

Brynhildur Guðjónsdóttir.
Brynhildur Guðjónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynhildur Guðjónsdóttir hefur sagt starfi sínu sem leikhússtjóri Borgarleikhússins lausu frá og með 31. mars næstkomandi.

Í tilkynningu frá Leikfélagi Reykjavíkur segir að Brynhildur hafi viðrað þessa hugmynd við stjórn leikfélagsins í nóvember en endaleg ákvörðun hennar lá fyrir á dögunum og var kynnt fyrir starfsfólki Borgarleikhússins í morgun.

„Brynhildur tók við stöðu leikhússtjóra fyrir nákvæmlega fimm árum, þann 14. febrúar 2020, og hefur frá þeim tíma veitt Borgarleikhúsinu styrka forystu, leitt það í gegnum heimsfaraldur og skilar af sér góðu búi jafnt listrænt- sem rekstrarlega,“ segir í tilkynningunni.

Ætlar að helga sig listinni

Brynhildur hefur ákveðið að takast á við nýjar áskoranir sem listamaður.

„Að vandlega íhuguðu máli hef ég ákveðið að helga mig listinni að fullu á ný og segja starfi mínu sem leikhússtjóri lausu,“ er haft eftir Brynhildi í tilkynningunni.

Stjórn Leikfélags Reykjavíkur auglýsir eftir umsóknum um stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins. Stefnt er að því að viðkomandi hefji störf við undirbúning leikársins 2025–2026 þegar í vor og taki formlega við stjórn leikhússins fyrir lok núverandi leikárs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert