Finna til vanmáttar og öryggisleysis innan skólans

Starfsfólk Breiðholtsskóla segir börnin líða fyrir úrræða leysi stjórnvalda, sem …
Starfsfólk Breiðholtsskóla segir börnin líða fyrir úrræða leysi stjórnvalda, sem fljóti sofandi að feigðarósi. mbl.is/Karítas

Kennarar, skólaliðar og aðrir starfsmenn Breiðholtsskóla harma úrræðaleysi stjórnvalda og krefjast tafarlausra úrbóta þegar kemur að því að eiga við aukna ofbeldismenningu meðal barna. 

Þau segja gengjamyndun þekkjast víðar en í Breiðholtinu og að við grafalvarlegt og vaxandi þjóðarmein sé að etja. Alls staðar komi fólk að lokuðum dyrum þegar úrræða er leitað. Stjórnvöld verði að bregðast við.

Börnin líða fyrir það á meðan stjórnvöld fljóta sofandi að feigðarósi. Samfélagslegur kostnaður verður aðeins sífellt hærri og við starfsfólkið upplifum daglega ábyrgðar- og skilningsleysi ráðamanna á eigin skinni. Við finnum einnig til vanmáttar og öryggisleysis innan vinnustaðarins. Það fást fáir til að starfa lengi við slíkar aðstæður.

Þetta segir í yfirlýsingu frá starfsfólki Breiðholtsskóla í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is á grafalvarlegum eineltis- og ofbeldisvanda í skólanum sem hefur viðgengist í nokkur ár.

Formaður skóla- og frístundaráðs og borgarfulltrú Framsóknar neitaði í gær að tjá sig við Morgunblaðið og mbl.is um vandann og bar fyrir sig meirihlutaviðræður í borgarstjórn Reykjavíkur.

Aukinn vandi meðal barna

Kennarar og annað starfsfólk segja skólann góðan skóla með vinalegum brag, og að virk og öflug eineltisstefna sé við skólann.

„Verði gæslufólk sjálft vitni að stríðni eða annarri óæskilegri hegðun, eða barn lætur vita af henni, eru öll slík mál tekin föstum tökum eins og annar ágreiningur barna í frímínútum. Við vinnum úr öllum málum sem geta á einhvern hátt flokkast sem áreitni eða ofbeldi.“

Íslensk grunnskólabörn eigi þó í auknum mæli í tilfinninga-, hegðunar-, og félagslegum vanda, auk námsvanda.

„Þau geta sýnt ógnandi hegðun, meitt og strítt. Börn eru jafnvel í slagtogi við nemendur úr öðrum skólum og sýna utan skólatíma ógnandi og ofbeldisfulla hegðun. Slíkt getur smitast inn í skólana í formi ótta skólasystkina við þau,“ segir í yfirlýsingunni.

Alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins

Starfsfólkið bendir á að það hafi ekki lagalegar heimildir til að grípa inn í atburðarás sem gerist eftir að skóladeginum lýkur. Það gæti með því ógnað eigin öryggi. 

„Það er á ábyrgð forráðamanna, félagsþjónustu, lögreglu, barnaverndaryfirvalda og Reykjavíkurborgar. Af allri umræðu um skólamál og vaxandi ofbeldi í samfélaginu er ljóst að sveitarfélög þurfa að fara að hugsa sinn gang og tryggja bæði öryggi nemenda og starfsmanna á sínum vinnustöðum.“ 

Ljóst sé að alda harðnandi ofbeldis hafi verið að skella á samfélaginu öllu undanfarin ár, og að skólarnir séu ekki undanskildir því.

Í svari skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn um ofbeldismenningu í Breiðholtsskóla kom fram að sviðið kannaðist ekki við eineltis- og ofbeldisvanda í skólanum til margra ára.

Í yfirlýsingunni segir að svar sviðsins komi starfsmönnunum í opna skjöldu enda hafi sviðið verið vel upplýst um þessi mál. Er svarið í „hrópandi ósamræmi við þá upplýsingagjöf sem verið hefur á undanförnum misserum,“ að því er fram kemur í yfirlýsingunni.

„Við veltum nú fyrir okkur hvað veldur og hvers vegna boltanum er varpað aftur á starfsmenn þegar úrræðaleysi og aðstoð við börn í vanda er alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins.“

Nemendur komast ekki að

Starfsfólkið bendir á að engin sérstök hegðunarver séu í boði innan skólanna. Breiðholtsskóli hafi reynt að setja slíkt á laggirnar en skorti bæði starfsfólk og fjármagn.

„Nemendurnir skulu sækja sinn hverfisskóla og þar með ógna bekkjarsystkinum sínum, þó ekki sé nema með nærverunni einni. Þeir komast ekki að í Brúarskóla, Klettaskóla, BUGL eða annars staðar vegna langra biðlista. Enn lengri er biðin eftir að fá greiningu á þroskafrávikum.“

Krefjast þau að ríki og sveitarfélög grípi strax til aðgerða, tryggi börnum í vanda þau úrræði sem þau eigi rétt á og sömuleiðis tryggi öðrum nemendum þá friðsamlegu skólagöngu sem þau eigi rétt á. 

„Og hlúi jafnframt að sínu starfsfólki með því að viðurkenna vandann. Þau fari í uppbyggingu og lagabreytingar til að bregðast við, en hætti að vísa ábyrgðinni á okkur sem erum á gólfinu,“ segir í yfirlýsingunni.

„Við sem starfsfólk við skólann gerum allt sem í okkar valdi stendur, innan þeirra verklagsreglna sem okkur eru settar. Fyrir hönd skjólstæðinga okkar og okkar sjálfra krefjumst við tafarlausra úrbóta í þessum málaflokki heilt yfir.“

Sífellt meiri hræðsla í starfi

Rætt var við Sigrúnu Ólöfu Ingólfsdóttur, skólastjóra Hörðuvallaskóla í Kópavogi, í Morgunblaðinu í dag.

Þar segist hún verða var við að starfsfólk skóla finni fyrir sífellt meiri hræðslu í starfi. Ungmenni á Íslandi glími við aukinn vanda og að úrræðaleysi stjórnvalda blasi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert