Fundu skotvopn í Laugalækjarskóla

Laugalækjarskóli.
Laugalækjarskóli. mbl.is/sisi

Lögregla hefur haldlagt skotvopn sem fannst á þaki Laugalækjarskóla eftir árshátíð sem fór fram í Laugardalshöll í gærkvöldi. 

Þrír piltar sem voru á heimleið príluðu upp á þak skólans og fundu hið meinta skotvopn í tösku á þaki skólans og gerðu lögreglu strax viðvart. Lögregla kom á staðinn, ræddi við drengina og haldlagði skotvopnið.

Ásmundur Rúnar Gylfason, stöðvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti að lögregla hefði tekið skotvopnið í sína vörslu. Hann sagði að engin skotfæri hefðu fundist og að lögregla hafi verið í sambandi við skólastjórnendur sem munu upplýsa foreldra frekar um málið.  

„Þetta reyndist vera skotvopn og lögregla er með þetta til skoðunar. Við erum meðal annars að skoða myndefni,“ segir Ásmundur. 

Umræða hefur skapast um málið meðal foreldra í skólanum á spjallborði og er mörgum eðlilega brugðið.

Jón Páll Haraldsson, skólastjóri í Laugalækjarskóla, segir að hann muni ekki tjá sig um málið fyrr en foreldrar hafa verið upplýstir um málavexti.

Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar sagði að árshátíðin hefði verið í skólanum en hið rétta er að hún var í Laugardalshöll og voru drengirnir á heimleið þegar þeir fundu skotvopnið. Þá sagði í fyrstu útgáfu að um meint skotvopn hafi verið að ræða, en nú hefur lögregla staðfest að gripurinn sé raunverulegt skotvopn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert