„Þetta er gríðarlega mikilvægt tækifæri fyrir okkur til að ræða stöðu okkar innan EES, stöðu okkar innan NATO, stöðu okkar meðal Norðurlanda og Eystrasaltsríkja og tryggja það að ég sem nýr forsætisráðherra, eins og Þorgerður hefur verið að gera sem utanríkisráðherra á undanförnum vikum, eflum þessi tengsl við þær þjóðir sem við vinnum hvað mest með.“
Þetta segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is, en hún situr hina árlegu Öryggismálaráðstefnu í München ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra.
Kristrún segir um marglaga ráðstefnu að ræða ef svo má segja þar sem margir leiðtogar ríkja koma saman, utanríkisráðherrar og þess háttar en einnig fari fram fagleg umræða á hinum og þessum stöðum.
Fyrst og fremst er þessi ráðstefna þó grundvöllur beinna samtala fyrir okkur á forsætis- og utanríkisráðherrastiginu,“ segir Kristrún og bætir því við að fólk hafi fyrst og fremst komið, og þar með talið þær Þorgerður Katrín, til að þétta raðirnar.
„Það er útgangspunkturinn hjá okkur núna að þétta raðirnar með Norðurlöndunum og öðrum NATO-ríkjum.“
Á fimmta hundrað ráðstefnugestir verða um helgina í München, en auk ráðamanna héðan og þaðan úr heiminum verða þar meðal annars leiðtogar alþjóðlegra stofnana, háttsettir fulltrúar fyrirtækja í margs konar iðnaði, fjölmiðlun og fræðasamfélaginu.
„Ég sat ráðstefnuna fyrr í dag þegar Von der Leyen og J.D. Vance, sem og forseti Þýskalands héldu ræður en þar voru leiðtogar flestra Evrópuríkja og reyndar víða úr heiminum.“
Forsætisráðherra mun eiga formlega tvíhliða fundi og segir hún marga þeirra að beiðni leiðtoga annars staðar frá því þeir séu forvitnir um nýja ríkistjórn á Íslandi. Þeir séu forvitnir um þá stöðu sem upp er komin og forvitnir um stöðunna í Norður-Atlantshafinu. Þar gegni Ísland stóru hlutverki.
Aðspurð segist hún fyrst og fremst upplifa mjög ríka ábyrgðartilfinningu hjá leiðtogum Evrópu. Segist hún finna hana þegar hún hittir leiðtogana, sérstaklega þá evrópsku og í samtölum meðal Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna um þá breyttu orðræðu sem heyrist nú frá Bandaríkjunum.
„Það skiptir máli að sýna aukna samstöðu í Evrópu og fólk er bara að reyna að horfa fram á veginn og sjá breytt hlutverk Evrópu þegar kemur að öryggis- og varnarmálum,“ segir hún.
Ítrekar Kristrún að Ísland eigi ríkra hagsmuna að gæta þegar kemur að sambandi okkar, bæði varnarsamningi og viðskiptasamningi við Bandaríkin og segir öll Evrópuríkin horfa til þess að styrkja sitt samband til að eiga öflugra samband við Bandaríkin og innan NATO fram á veginn.
„Fólk er aðeins að ítra stöðuna og taka nýtt stöðumat en horfir bara öruggt fram á veginn.“
Talið berst að Úkraínu og samstöðu með Úkraínumönnum. Kristrún ítrekar mikilvægi þess að Úkrínumenn eigi sjálfir aðkomu að friðarsamningum og ríki Evrópu. Það sé mikilvægt að þau skilaboð komi mjög skýrt fram, „sem var auðvitað það sem birtist í yfirlýsingu frá okkur og NB8-ríkjunum í morgun.“
Leiðtogar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna segja í yfirlýsingunni í morgun að gera verði Úkraínumönnum kleift að verjast og standa af sér árásarstríð Rússa til að tryggja réttlátan og langvarandi frið.
Þá segir að lyktir stríðsins muni hafa grundvallaráhrif á öryggi í Evrópu og á Atlantshafssvæðinu til lengri tíma. Meginmarkmiðið sé að styrkja Úkraínu og að nú eigi sér stað samtal við Bandaríkin og öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins um hvernig megi tryggja frið úr styrkri stöðu.
„Við höfum verið að fylgja þessu eftir og tryggja pláss Íslands í þessu samhengi. Síðan erum við auðvitað líka í samtölum hér við fólk til að ítreka eindreginn stuðning við Úkraínu,“ segir ráðherra.
Síðast en ekki síst segist Kristrún vera í München til að gæta hagsmuna Íslands þegar kemur að viðskiptum.
„Á öllum þeim fundum sem ég er að eiga með háttsettum einstaklingum innan úr Evrópukerfinu og Evrópusambandinu og með forsætisráðherrum og þjóðhöfðingjum annarra þjóða eru skilaboðin mjög skýr.
Að Ísland sem EFTA-ríki muni ekki lenda á milli í tollastríði milli Bandaríkjanna og Evrópu.“
Spurð hvort skilaboð Íslands hafi hlotið hljómgrunn segir Kristrún alla meðvitaða um stöðuna og vita af mikilvægi Íslands innan EES og EFTA.
„Það er bara mikilvægt að við höldum þessu alltaf til haga og ég geri það reglulega í öllum þeim samtölum sem ég á við nágranna okkar á Norðurlöndum og núna hefur háttsett fólk heyrt þetta bæði frá mér og frá utanríkisráðherra.“
Fyrsti dagur ráðstefnunnar var í dag. Kristrún ræddi hagsmunagæslu Íslands á vettvangi EES og viðbúnað ESB og EES-EFTA ríkjanna varðandi tollamál á fundi sínum með António Costa, forseta Leiðtogaráðs Evrópusambandsins, í kjölfar boðaðra stefnubreytinga Bandaríkjastjórnar sem kunna að valda talsverðum áskorunum.
Þá átti forsætisráðherra fund með Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, þar sem stríðið í Úkraínu og horfur í öryggis- og varnarmálum Evrópu voru á meðal dagskrárliða.
Einnig fundaði Kristrún með Aksel Johannessen, lögmanni Færeyja, og Alain Berset, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
Á morgun mun Kristrún sitja hluta ráðstefnunnar og eiga fleiri tvíhliða fundi, meðal annars með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, og Mohammad Mustafa, forsætisráðherra Palestínu.
Á sunnudagsmorgun tekur hún þátt í umræðum með forseta Finnlands og forseta Litháen og forsætisráðherra Króatíu, þar sem rædd verður sú staða sem upp er kominn, sem sumir vilja kalla ákveðin straumhvörf í öryggis- og varnarmálum í Evrópu.
„Það er bara umræða sem við þurfum að taka þátt í eins og önnur ríki,“ segir Kristrún og vísar þar til áforma bandarískra stjórnvalda að kalla heim stóran hluta herliðs síns frá Evrópu.
Ráðstefnunni lýkur upp úr hádegi á sunnudaginn.