Fyrir tilviljunar sakir gaf borgarfulltrúi Samfylkingar, Hjálmar Sveinsson, út bók á þriðjudaginn sem ber titilinn Skógarhögg. Svo vill til að þann sama dag hófst niðurfelling trjáa í Öskjuhlíð en nokkur styr stóð um þau áform enda skógarhöggið nátengt starfsemi flugvallarins í Vatnsmýri.
Þannig var tveimur flugbrautum lokað á Reykjavíkurflugvelli sökum þess að trjágróðurinn í Öskjuhlíð var sagður hafa áhrif á aðflug að vellinum og var borgin sökuð um að draga lappirnar þegar kom að hinu hápólitíska skógarhöggi.
Hvað sem slíkri atburðarás líður þá hélt Hjálmar útgáfuhóf sitt á þriðjudag. Þó að bókin beri nafnið Skógarhögg: Geðshræring er hún alls ekki um þá iðju, heldur er um að ræða þýdda skáldsögu frá austurríska rithöfundinum Thomas Bernard sem vakti umtal þegar hún kom út á níunda áratug síðustu aldar.