Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir, skólastjóri Hörðuvallaskóla, segir að grunnskóla skorti mjög úrræði þegar kemur að alvarlegum ofbeldis- og hegðunarvandamálum.
Henni þykir algengara nú orðið að starfsfólk grunnskólanna tali um að vera hrætt í starfi og kallar eftir aðgerðum af hálfu bæði ríkis og sveitarfélaga.
Hún segir úrræðaleysið víðtækt og að það blasi við að börn eigi í miklum tilfinningalegum vanda, þar með talin börn með hegðunarvanda sem jafnvel beita ofbeldi.
„Þetta byrjar allt í börnunum þegar þau eru ung og ef þau fá ekki viðeigandi hjálp, hvar endar þetta?“ spyr hún í samtali við Morgunblaðið í dag.
Greint var í blaðinu á mánudag frá viðvarandi ofbeldi sem nemendur á miðstigi í Breiðholtsskóla hafa þurft að þola af hálfu hóps samnemenda sinna í nokkur ár.
Lýsti faðir einnar stúlku því hvernig hann hefði leitað á náðir ýmissa stofnana til að vinna bug á vandanum, án árangurs.
Ofbeldið hefur verið líkamlegt, kynferðislegt og andlegt og hefur fjöldi nemenda þurft að líða fyrir úrræðaleysi skólayfirvalda.
Aðstoðarskólastjóri skólans benti á að úrræði stæðu skólum í Reykjavík til boða en að langir biðlistar þvældust fyrir. Æskilegt væri ef sérskólar gætu tekið við fleiri nemendum, eða að fleiri slíkir skólar væru til staðar.
Sigrún segir það ljóst að mikil þörf sé á aðgengilegum og viðeigandi úrræðum fyrir börn sem þurfa á þeim að halda, svo að hefðbundið skólastarf geti haldið áfram og börnum liðið vel innan veggja skólans.
Hún bendir á að hlutverk kennara sé fyrst og fremst að mennta börnin, auk þess að vera viss um að hverjum og einum nemanda líði vel í skólanum.
Að hennar mati hefur starf kennara færst sífellt meira út fyrir þetta hlutverk.
„Mikill tími í starfi kennarans fer í að leysa úr alls konar ágreiningsmálum,“ segir Sigrún. Stærri og stærri mál teljist með tímanum eðlilegri innan skólans.
„Mál sem manni þóttu mikil fyrir stuttu, eru orðin svo lítil núna í stóra samhenginu,“ bætir hún við.
„Þessi atvik eins og lýst er í Breiðholtsskóla – þetta er orðið algengara og það er orðið erfiðara að eiga við þetta.“
Ítarlegar er rætt við Sigrúnu á síðu 6 í Morgunblaðinu í dag.